top of page

Einstaklingsmiðun

Eitt markmiða rannsóknarinnar var að komast að því hvort nýta mætti rafrænar ferilbækur til að auka einstaklingsmiðun. Rafrænar ferilbækurnar bjóða upp á ýmsa möguleika til annars konar tjáningar sem getur stutt við ólíka nemendur. Með því að bjóða nemendum upp á að velja þann tjáningarmiðil sem þeir kjósa telur rannsakandi sig vera að minnka aðgreiningu nemenda á grundvelli getu þeirra í að skila skriflegum verkefnum. Það er í takt við skóla án aðgreiningar þar sem nemendur eru ekki greindir út frá þáttum sem þeir hafa ekki tök á að breyta líkt og Anna Kristín Sigurðardóttir (2013, bls. 41) skilgreinir stefnuna. 


Eignarhald var áberandi þáttur í tengslum við ferilbókagerðina þar sem nemendur upplifðu sterkt að þeir báru ábyrgð á eigin námi. Þeir voru sjálfir ábyrgir fyrir ferilbókinni og voru því virkir þátttakendur í eigin merkingarsköpun. Það samræmist sýn Love og Cooper (2004, án bls.) á kosti ferilbókagerðar. Það jók ennfremur eignarhald nemenda að geta aðlagað ferilbókina sjálfa, bæði hvað varðar útlit og innihald, að eigin smekk, væntingum og námsstíl. 


Nemendur nefndu það sérstaklega að þeim fannst mikilvægt að geta aðlagað ferilbókin og haft áhrif á útlit og uppsetningu. Það kom fram í öllum rýnihópum og skapaðist ágæt umræða um einmitt þennan þátt. Því má álykta að mikilvægt sé að gefa nemendum tækifæri og tíma til þess að sinna þessum þætti. Það er vissulega tímafrekt og því þarf að gera ráð fyrir þessari vinnu í kennsluskipulagi, bæði í upphafi þegar nemendur búa til grunninn að ferilbókinni og í lokin þegar nemendur klára ferilbókina fyrir skil. Það er líka mikilvægt að gefa nemendum tíma í lok hverrar kennslustundar til þess að skrásetja, ígrunda og vinna að ferilbókinni. 

Rannsakandi telur að þetta aukna frelsi í námi hafi stuðlað að aukinni skuldbindingu nemenda. Nemendur í öllum árgöngum tóku fram að sjónlistastofan væri uppáhaldsstofan þeirra og að þeir hefði viljað vera þar oftar. Þessi sýn nemenda á námsumhverfi sitt er einmitt einn þeirra þátta sem hefur áhrif á skuldbindingu samkvæmt Wang og Holcombe (2010, bls. 652). Shernoff, Csikszentmihalyi, Schneider og Shernoff (2014, án bls.) komust að því að skuldbinding nemenda jókst þegar þeir tókust á við verkefni sem þeir höfðu gott vald á, leiðbeiningar voru skýrar og þeir höfðu stjórn á námsumhverfi sínu. Því má álykta að nauðsynlegt sé að gefa nemendum aukið frelsi og tækifæri til aðlögunar. Rannsakandi lagði sitt af mörkum til þess að allir þessir þættir væru í lagi og var líðan og árangur nemenda eftir því.

Hicks o.fl. (2007, bls. 450) og Niguidula (2005, bls. 47) benda á að rafræn ferilbókagerð bjóði upp á að nemendur nýti ólíka tjáningarmiðla. Rannsakandi bauð nemendum upp á að setja inn færslur í því sniði sem þeir helst kusu en í upphafi völdu flestir að setja inn texta og myndir. Það var ekki fyrr en undir lok skólaárs sem nemendur fóru að setja inn öðruvísi færslur á borð við vlog (e. video log) og hröðunarmyndbönd (e. time lapse). Líklega eru nemendur óvanir því að hafa þetta frelsi en greinilegt var að þeim líkaði það. Líkur eru á að með tímanum verði nemendur öruggari og aðlagi ferilbókagerðina frekar að eigin námsstíl. Þetta hefði ekki verið hægt nema með rafrænum ferilbókum og þeim möguleika á að nýta ofurmiðlun (e. hypermedia) en það er einmitt einn helst kostur ferilbóka líkt og Barrett (2011, án bls.) bendir á. Því má álykta að rafræna útgáfa af ferilbókum sé margt hentugri en sú hefðbundna.


Þegar nemendur fá aukinn sveigjanleika opnast tækifæri til þess að aðlaga efnið að áhugasviði viðkomandi. Skiptar skoðanir eru á því hvort hægt sé að hafa áhrif á áhugahvöt líkt og Kohn (2010, án bls.) telur. Hinsvegar eru margir sem telja áhugahvöt vera sambland af innri og ytri þáttum en skilgreiningar geta þó verið ólíkar. Renninger og Hidi (2011, án bls.) telja að um sé að ræða sambland af persónubundum áhuga og ytri aðstæðum. Reynsla rannsakanda gefur vísbendingar um slíkt samspil en við upphaf tímabila var áhugi nemenda á sjónlistum ólíkur. Þrátt fyrir það þá virtist fyrirkomulagið, aðlögun í sambland við hugmyndafræði lærdómssamfélagsins styðja við aukinn áhuga þeirra nemenda sem höfðu ekki sérstakan áhuga á sjónlistum. Rannsakandi telur aukna skuldbindingu einnig styðja við að viðhalda áhuga nemenda en það telja Babiker, Faye og Malik (2016, án bls.) einmitt vera hið raunverulega verkefni kennarans.

Þrátt fyrir að nemendur eyði oft miklum tíma í snjalltækjum, þá virðast þeir ekki búa yfir mikilli færni í skapandi notkun tækjanna. Notkun þeirra virðist nokkuð einhæf og miðast við samskiptamiðla. Það er ljóst að nemendur þurfa þjálfun í mynd- og tæknilæsi og að kynnast skapandi notkun snjalltækja. Það getur því verið flóknara að innleiða gerð rafrænna ferilbóka en reiknað er með ef marka má reynslu rannsakanda. Það krefst mikils skipulags, þrautseigju, endurtekningar og góðrar grunnþekkingar af hálfu kennara.

Aukið frelsi krafðist þess að nemendur sýndu meira sjálfstæði í námi en áður og gaf nemendum í raun tækifæri til þess. Líkt og Niguidula (2005, bls. 45) segir, þá getur frelsi í aðlögun veitt nemendum færi á að vinna mun sjálfstæðar en áður. Þetta á sérstaklega við um nemendur sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með þann tjáningarmáta sem oftast er krafist, þ.e. ritað mál. Nemendur fengu tækifæri til þess að skila öðruvísi færslum og þar með upplifa sig sem sjálfstæða námsmenn í stað vanhæfra einstaklinga en það er eitt af því sem Reid (2005, bls. 12) telur að sé mikilvægt í námi nemenda. 

Fram kom að nemendur voru ánægðir með sveigjanleikann og að hafa ákveðna stjórn á eigin námi sem gaf þeim frelsi til að læra á þann hátt sem þeir kusu sjálfir. Til að mynda valdi einn nemandi að taka upp vlog í stað skriflegrar ígrundunar. Hann taldi sig ekki mjög færan í stafsetningu og valdi að ígrunda munnlega í staðinn. Það samræmist einnig áherslum Norwich (2013 bls. 20–21) á félagsfræðilega nálgun á sérþarfir nemenda sem gerir ráð fyrir því að aðlaga þurfi umhverfi að nemendum en ekki öfugt. Það er þó ljóst að rafræn ferilbókagerð er eingöngu ein möguleg aðferð í að stuðla að einstaklingsmiðun og engin skyndilausn.

Einstaklingsmiðun: Intro
bottom of page