Rannsóknarspurningum svarað
Að baki rannsókn þessari lágu tvær rannsóknarspurningar. Sú fyrri var: Hvernig má nota rafrænar ferilbækur til þess að auka einstaklingsmiðun í skóla margbreytileikans? Eins og fram hefur komið geta rafrænar ferilbækur haft mikinn ávinning, bæði fyrir nemendur og kennara. Þær eru ein leið til þess að auka einstaklingsmiðun með því að efla sjálfstæði nemenda, óháð getu. Það er hinsvegar ekki eini ávinningurinn líkt og fjallað var um hér að framan en ásamt aukinni einstaklingsmiðun, veita þær utanumhald og stuðla að ígrundun ef markvissum námsstuðningi er beitt.
Síðari rannsóknarspurningin var: Hvernig getur hugmyndafræði lærdómssamfélagsins nýst sem leið að þessu markmiði? Rannsakandi valdi lærdómssamfélagið sem leið til þess að gefa nemendum aukið eignarhald á eigin námi, stuðla að lýðræði og leyfa rödd þeirra að heyrast. Það voru allt markmið sem náðust við framgang rannsóknarinnar að einhverju leyti. Nemendur eru óvanir því að hafa vald til þess að móta kennsluhætti og tók það þá einhvern tíma að leyfa skoðun sinni að heyrast. Hluti nemenda tók ekki virkan þátt í lærdómssamfélaginu og telur rannsakandi það vera áframhaldandi verkefni að gefa nemendum tækifæri, og efla það traust sem til þarf, til þess að vera virkir þátttakendur í eigin námi.
Að rannsókn lokinni ályktar rannsakandi að rafræn ferilbókagerð sé leið til þess að styðja við einstaklingsmiðað nám. Hann ályktar enn fremur að rafræn ferilbókagerð hafi marga aðra kosti og geti leitt til aukinnar námsvitundar nemenda sem er grunnur að námi. Rannsakandi telur lærdómssamfélagið hafa nýst vel sem leið að þessu markmiði. Það hafi veitt nemendum tækifæri til þess að hafa áhrif á eigið nám, stutt við lýðræðislega starfshætti og gefi nemendum aukið eignarhald á eigin námi.