Ígrundun
Ferilbækur nemenda reyndust tilvalinn vettvangur til ígrundunar eins og fram kemur hjá Hicks o.fl. (2007, bls. 459) og Niguidula (2005, bls. 47). Þegar nemendur unnu markvisst að ferilbók var hún ávallt opin þegar þeir unnu að verkefnum sínum. Þar af leiðir var hún aðgengileg þegar nemendur luku hluta verkefnis eða í lok tíma. Í eðli sínu gefur ferilbókagerð nemendum tækifæri á að skapa merkingu úr eigin upplifun með markvissri ígrundun líkt og Ma og Rada (2005, án bls.) benda á.
Í upphafi átti rannsakandi sjálfur erfitt með að temja sér að minna nemendur á að ígrunda og átta sig á þeim námsstuðningi sem nemendur þurfa á að halda við þennan þátt. Líkt og Darling (2001, án bls.) vill meina er nemendum ekki tamt að stunda ígrundun og það kom bersýnilega í ljós í rannsókninni en nemendur þurftu stöðuga áminningu um eðli og markmið ígrundunar. Undir lok skólaárs voru nemendur og rannsakandi búnir að finna ágætan takt hvað þetta varðar og gekk það betur en í upphafi. Cleveland (2018, bls. 276) hefur sagt að illa geti gengið að innleiða ígrundun sem markvissan þátt í námi og kennslu. Það varð rannsakandi var við og þurftu hann og nemendur að fikra sig hægt og rólega í rétta átt.
Það skipti sköpum að setja upp aðgengilegar leiðbeiningar varðandi ígrundunina sem er í samræmi við það sem fram kemur hjá Niguidula (2005, bls. 47) en hann bendir á að sé lykilþáttur ef vel á til að takast. Hann bendir á að nota kveikju eða spurningar til þess að auðvelda nemendum að ígrunda en rannsakandi valdi einmitt að útbúa spurningar sem nemendur gætu spurt sjálfan sig og velt fyrir sér því sem þeir gerðu, hvernig það hefði tekist og hverju þeir myndu breyta ef þeir gerðu þetta aftur.
Undir lok skólaársins höfðu nemendur orð á því hversu mikilvæg ígrundunin væri. Þeir töldu að hún hjálpaði þeim að muna aðferðir og tækni sem þeir beittu sjaldan og gætu því rifjað upp síðar meir. Því virðast einhverjir nemendur líta á ígrundunina sem ákveðna skrásetningu á eigin þankagangi varðandi það sem þeir læra. Það er áhugavert í tengslum við niðurstöður Hicks o.fl. (2007, bls. 451) en þar kom fram að áherslurnar í rannsóknum á árangri rafrænna ferilbóka beinast of oft að mati í stað ígrundunar.