top of page

Fyrsta tímabil

Á fyrsta tímabili kenndi rannsakandi tveimur árgöngum unglingastigs, áttunda og níunda en kenndi ekki tíunda árgangi. Í báðum árgöngum var um að ræða ellefu nemendur. Áætlunin var í tveimur þáttum, annarsvegar gerðu nemendur ferilbók sem þeir notuðu til þess að halda utan um þau verkefni sem þeir unnu í áfanganum og hinsvegar svöruðu þeir rafrænni könnun við lok tímabilsins þar sem þeir sögðu frá eigin upplifun af kennslunni.

Fyrsta tímabil: Intro

​Áætlun

Áætlun rannsakanda var að leggja inn ferilbókagerð við upphaf tímabilsins þar sem nemendur útbúa rafræna ferilbók í Padlet forritinu allt tímabilið. Þar myndu þeir safna saman allri sinni vinnu og skrásetja ferlið. Þannig átti að leggja aukna áherslu á ferlið og gefa nemendum tækifæri til þess að ígrunda eigið nám. Með því að nota rafrænar ferilbækur í stað hefðbundinna ferilbóka eða að nota pappírsmöppur til þess að halda utan um vinnu nemenda var áhersla lögð á sjálfbærni og mæta þannig þeim markmiðum sem Aðalnámskrá grunnskóla (2011, bls. 17) kveður á um.


Hugsunin var sú að nemendum yrðu gefin tækifæri til þess að nýta ólíka miðla í náminu og tæknilæsi þeirra aukið með það að markmiði að gera kennsluna fjölbreyttari og opna á fleiri möguleika við námið. Stefnt var að því að gefa nemendum fleiri verkfæri til þess að aðlaga námið að eigin getu og nemendum þannig gefið tækifæri til þess að vera sjálfstæðari í námi.


Áætlunin gerði ráð fyrir því að á meðan á tímabilinu stæði mundi rannsakandi halda dagbók og skrifa hjá sér með það að markmiði að auka eigin ígrundun og meðvitund um þær ákvarðanir sem hann tók daglega varðandi kennslu og þannig gera kennsluna markvissari. 


Við lok tímabilsins var áætlað að nemendur myndu taka rafræna könnun þar sem þeir svara spurningum varðandi þeirra reynslu og skoðanir á kennslufyrirkomulaginu. Þannig myndu nemendur fá tækifæri til þess að auka ígrundun enn fremur og öðlast meira vald yfir eigin námi. Niðurstöður könnunarinnar átti að nýta, ásamt dagbókarskrifum og reynslu rannsakanda, til þess að móta kennslufyrirkomulag og áætlun næsta tímabils.

Fyrsta tímabil: About My Project

​Íhlutun - Ígrundun

Kynning á vinnuferlinu fór fram í upphafi fyrstu kennslustundar tímabilsins hjá báðum árgöngum og var framkvæmdin sambærileg í þeim báðum. Áður en vinna við hefðbundin verkefni hófst, fengu nemendur kynningu á rannsókninni og tilgangi hennar. Þeir fengu að vita í stuttu máli hvernig gagnasöfnun færi fram og hvert hlutverk nemenda væri.


Eftir á að hyggja var kynningin á rannsókninni og ferlinu ekki nægilega vel undirbúin. Áherslan hafði verið á undirbúning á ferilbókunum sjálfum og gerð þeirra. Það gæti hafa orðið til þess að einhver atriði urðu útundan eða áhersla lögð á röng atriði. Nemendur höfðu lítið um rannsóknina og ferilbókagerðina að segja þegar kom að umræðu en voru jákvæðir. Þegar umræða beindist að þeirra hlutverki virtust þeir hafa áhuga á því að þeirra rödd myndi hafa áhrif.


Eins og áður hefur komið fram, varð Padlet forritið fyrir valinu sem sniðmát fyrir ferilbókagerðina eftir vandlega íhugun og samanburð á ýmsum forritum. Nemendur byrjuðu á því að búa til ókeypis aðgang að forritinu og notuðu ýmiskonar tölvupóstföng sem aðgang, sumir kusu að nota skólatölvupóstfang, aðrir Google reikning og enn aðrir Facebook.


Þegar nemendur höfðu stofnað aðgang, bjuggu þeir til sína fyrstu ferilbók. Þeir settu hana upp og nefndu hana viðeigandi heiti allt eftir viðfangsefni tímabilsins. Síðan aðlöguðu nemendur útlit bókarinnar að eigin smekk, bæði bakgrunn, liti og leturgerð. Að lokum stilltu nemendur friðhelgis stillingar, höfðu bókina í flestum tilfellum lokaða (e. private) en gáfu rannsakanda aðgang að bókinni. Þar bað hann þá að stilla hana þannig að rannsakandi gæti lesið (e. read) bókina en ekki sett inn færslur (e. read and write). Að þessu loknu hófst vinna við hefðbundin verkefni áfangans.

Nemendur fengu ekki fyrirmæli um að setja inn ákveðinn fjölda færslna né var gerð krafa á fjölbreytileika færslnanna. Á þessu fyrsta tímabili vildi rannsakandi sjá hvernig nemendur myndu nota bókina án nákvæmra leiðbeininga þar um. Í upphafi kennslustundar fengu nemendur spjaldtölvu og við lok kennslustundar voru þeir minntir á að skrásetja ferlið og færa inn í ferilbókina. 


Við lok fyrsta tímabils var ljóst að ígrundun nemenda hafði ekki verið næg. Nemendur höfðu ekki fengið skýr fyrirmæli um ígrundun en þeir voru einungis beðnir um að skrifa nokkur orð í síðasta tíma tímabilsins. Það var óundirbúið og fengu nemendur þau fyrirmæli þegar þeir höfðu lokið við rafrænu könnunina. Þar sem könnunin felur í sér ákveðna ígrundun, upplifðu einhverjir nemendur þetta sem endurtekningu og var ígrundun ekki löng líkt og ferilbækurnar gáfu til kynna.

Það kom fljótt í ljós að nemendur voru misvanir að vinna á spjaldtölvur. Padlet forritið er nokkuð notendavænt og heilt yfir ekki flókið að temja sér ef nemendur fá að kynnast því og venjast þeirri vinnu hægt og bítandi. Það er hinsvegar mikilvægt að gefa nemendum þann tíma og aðlögun sem þeir þurfa. Níundi árgangur var í áfanga í teikningu og notaði spjaldtölvur nánast eingöngu til þess að skrásetja ferlið með því að taka myndir af ferlinu og setja inn í ferilbókina ásamt stuttum textum. Áttundi árgangur var hinsvegar í áfanga í merkjahönnun og munstursgerð og notaði ýmiss forrit til þess að vinna verkefnin. Þeir þurftu því að nota spjaldtölvur bæði við verkefni áfangans og við að útbúa ferilbók og skrásetja ferlið. Forritin sem nemendur notuðu við verkefnin og ferilbókagerðina urðu of mörg og nemendur misstu fljótt yfirsýn. Þeir mundu ekki hvað hvert forrit gerði eða hvernig þeir ættu að skrá sig inn í þau. Þetta endurspeglaðist í rafrænu könnuninni en þá kom í ljós að nánast öllum nemendum í áttunda árgangi þótti ferilbókagerðin flókin en engum í níunda árgangi. Allir nemendur nema einn sögðu þó að vinnan hefði gengið vel þegar þeir höfðu lært á forritið.


Einn nemandi kom með þá ábendingu að betra er að sinna ritvinnslu á tölvur en á spjaldtölvur. Eftir vandlega íhugun telur rannsakandi þó að spjaldtölvur séu hentugasta verkfærið í þessa vinnu þar sem hægt er að skapa margskonar verkefni þrátt fyrir að ekki sé hentugt að vinna langa texta. Spjaldtölvur hentar vel til að búa til og vinna myndir og hreyfimyndir, vinna saman myndir og texta á einfaldan hátt, setja upp slæðusýningar, taka upp hljóð og vinna með tónlist.


Ef til vill eru nemendur vanir skriflegri vinnu og þurfa að fá tækifæri til að temja sér annarskonar vinnubrögð og átta sig á þeim tækifærum sem spjaldtölvur bjóða uppá. Þegar vinna á langa texta á spjaldtölvur er möguleiki að tengja lyklaborð við spjaldið sem gæti verið góð lausn á þessari hindrun. Sniðugt væri að eiga nokkur lyklaborð sem nemendur gætu notað í slíkum tilfellum. Einnig gæti verið þægilegt að eiga festingar fyrir spjaldtölvur og/eða síma sem nemendur gætu nýtt til þess að taka upp myndskeið af eigin vinnu og aðferðum til þess að skrásetja ferlið á þann hátt. 


Eitt markmiða rannsóknarinnar var að auka sjálfstæði nemenda í námi. Það er langtímamarkmið sem rannsakandi telur sig þurfa að vinna markvisst að. Nemendur voru oft ósjálfstæðir og þurftu skýra leiðsögn og stöðugt aðhald við ferilbókagerðina enda eru það ný vinnubrögð sem nemendur temja sér mishratt. Nemendur gera sér heldur ekki alltaf grein fyrir öllum þeim möguleikum sem ferilbókagerð bíður uppá og þurfa leiðbeiningar og verkefni til þess að kynnast aðferðum og verkfærum og sjá möguleikana. Þær tilraunir sem nemendur gera eru hinsvegar oft fljótar að smitast út. Einn nemandi hafði frumkvæði að því að ná í Padlet forritið í símann sinn til þess að geta unnið að ferilbókinni heiman frá. Það hafði rannsakandi ekki rætt sérstaklega við nemendur þó svo að það sé einn af helstu kostum ferilbókagerðar. Innan tíðar var mesti hluti nemenda komin með forritið í símann sinn.


Rannsakandi velti því þó fyrir sér hvort eitthvað annað forrit henti betur til ferilbókagerðarinnar og var það ein af spurningum sem nemendur svöruðu í rafrænu könnuninni. Langflestir voru sáttir við Padlet og var yfirgnæfandi ánægja með notkun forritsins á meðal nemenda á öllum tímabilum rannsóknarinnar. Á fyrsta tímabili komu tveir nemendur með hugmynd að öðru forriti eða Google Classroom og Power Point. Í gegnum tímabilin stakk einn og einn nemandi upp á Google Classroom.

Aðspurðir hvað væri mikilvægt að forrit sem notað er við ferilbókagerð gæti gert, nefndu langflestir að mjög mikilvægt væri að geta flokkað færslur og efni bókarinnar. Það er því greinilegt að ef rannsakandi vill halda áfram að nota Padlet, þarf hann að skoða betur þau ólíku sniðmát sem Padlet bíður upp á og leiðbeina nemendum betur hvað það varðar. Einnig voru margir sem nefndu að mikilvægt væri að forritið væri einfalt í notkun og var það mjög algengt svar nemenda á öllum tímabilum. Þá vildu nemendur geta sett inn myndir og texta sem og aðra ónefnda miðla og aðlagað útlit að smekk.


Helsti ókostur við Padlet er að kennarinn hefur ekki stjórn á aðgangi nemenda að Padlet heldur hafa nemendur og kennari hafa jafnan aðgang. Það eru aðallega tveir vankantar við það fyrirkomulag. Nokkrir nemendur nefndu þessi erfiðleika í rafrænu könnuninni. Sá fyrri er að nemendur eiga það til að gleyma lykilorðum og notendanöfnum sínum. Þegar það gerist hefur kennari engin bjargráð og getur ekki aðstoðað nemendur við að endurheimta aðgang sinn að bókinni. Það gæti þýtt að nemandi þyrfti að byrja upp á nýtt við ferilbókagerðina. Færslurnar eru þó ekki týndar þar sem kennari hefur aðgang að bókinni sem áhorfandi. Þannig getur hann leyft nemanda að færa færslurnar yfir í nýju bókina en það tekur tíma og fyrirhöfn sem getur dregið kraft úr nemendum og minkað áhuga þeirra á ferlinu. 

Sá síðari er sá að kennari hefur eingöngu áhorfenda aðgang að bókum nemenda og getur því ekki sett neitt efni í bækur nemenda, til að mynda kennsluleiðbeiningar eða annað efni. Nemendur þurfa að gera það sjálfir með því að skanna inn efni frá kennara. Nemendur hafa mismikla þolinmæði eða skilning á því af hverju það skiptir máli og eiga það til að sleppa því. Hugsanlega þar sem þeir vilja nýta tímann til þess að vinna að sköpun sinni. Kennari gæti haft meiri aðgang að bókum nemenda en þeir geta valið að kennari geti sett efni í bókina. Hinsvegar krefst það þess að kennari setji efni í hverja bók fyrir sig, ekki á nemendahópinn sem heild.


Rannsakandi hefur tamið sér að meta ferilbækur og þátttöku nemenda eftir hvert tímabil fyrir sig. Þegar kom að mati eftir fyrsta tímabil, hafði rannsakandi fleiri og ítarlegri gögn í höndunum en áður. Ferilbók hvers nemanda geymdi vinnuferli hans og endurspeglaði að einhverju leyti hans vinnuframlag. Aðspurðir töldu nemendur að mat með þessum hætti yrði sanngjarnt og var það ríkjandi skoðun allra nemenda sem komu að rannsókninni heilt yfir skólaárið. Einungis örfáir nemendur voru ekki á sama máli en komu ekki með nánari athugasemdir varðandi það. Nokkrir nemendur tóku fram að líklega yrði mat að einhverju leyti auðveldara þar sem ferlið væri skrásett og utan um það haldið. Einn nemandi nefndi að það yrði þó líka að taka tillit til hegðunar í tímum og almennu framferði nemenda. 


Nemendur virtust ánægðir með að fá tækifæri til þess að segja sína skoðun og voru almennt jákvæðir fyrir því að svara rafrænu könnuninni. Eftir á að hyggja voru þó nokkrir vankantar á fyrirkomulaginu. Í fyrsta lagi svöruðu nemendur könnuninni á spjaldtölvur. Þar sem þær eru ekki með lyklaborð líkt og áður hefur komið fram, eru nemendur hægari að skrifa og skrifa því minna en ella. Í öðru lagi þá lagði kennari könnunina fyrir undir lok tímans og nemendur áttuðu sig fljótt á því að þeir gætu farið úr tíma þegar þeir voru búnir. Það gæti hafa orsakað það að þeir gáfu sér ekki nægan tíma til að svara.


Eitt af markmiðum rannsóknarinnar náðist strax að loknu fyrsta tímabili en það er að gera ferilbókagerðina sjálfbærari og stuðla að minni efnissóun. Rafrænar ferilbækur mæta því markmiði vel og mátti því sjá árangur strax, sér í lagi þegar ferilbókagerð unglingastigs var borin saman við ferilbókagerð á miðstigi þar sem ferilbækur eru enn í hefðbundnu pappírs og möppuformi.

Fyrsta tímabil: About My Project
bottom of page