top of page

Fjórða tímabil

Fjórða tímabil varði frá 18. janúar til 22. mars. Á fjórða tímabili kenndi rannsakandi öllum þremur árgöngum unglingastigs. Um var að ræða 13 nemendur í áttunda bekk, 11 nemendur í níunda bekk og 12 nemendur í tíunda bekk.

Fjórða tímabil: Intro

Endurskoðun - ​Áætlun

Líkt og eftir fyrstu tímabilin voru fjölbreytt atriði sem þurfti að endurskoða, bæta eða aðlaga á einhvern hátt. Áætlað var að stuðla að sjálfstæði nemenda með því að útbúa einfaldar leiðbeiningar þar sem farið yrði yfir það hvernig á skrá sig inn á Padlet. Leiðbeiningarnar átti að prenta út, plasta og hengja á áberandi stað þar sem nemendur geta auðveldlega nálgast þær. Einnig ætlaði rannsakandi að opna á Padlet sniðmátin þannig að nemendur gætu nálgast þau í gegnum sinn Padlet aðgang og kynnt sér þau betur áður en þeir völdu sér snið eða síðar í ferlinu.


Áætlunin varðandi eflingu umræðuhluta breyttist að einhverju leyti þar sem áherslan var færð á umræður á meðan á tímabilinu stóð, frekar en afmarkaðar við upphaf tímabilsins. Rannsakandi ætlaði að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem kunnu að gefast til þess að eiga í afslöppuðum umræðum við nemendur um þeirra upplifun af ferlinu og kennslunni.

Ákveðið var að láta nemendur ígrunda við lok hverrar kennslustundar sem og við lok hvers áfanga ferlisins. Þannig var von um að nemendur myndu æfa sig í því að ígrunda og átta sig þannig betur á því hvað felst í ígrundun, ásamt því að fá betra yfirlit yfir eigin vinnu í formi texta eða frásagnar. Ígrundunina geti þeir síðan nýtt í næstu kennslustund til þess að aðlaga eigin vinnu og læra af því sem þeir hafa þegar gert.


Að lokum var lögð sérstök áhersla á að leggja fyrir nemendur minni heimaverkefni til þess að kynna fyrir nemendum hluta af þeim fjölbreyttu miðlum sem rafræn ferilbókagerð gefur möguleika á.

Fjórða tímabil: About My Project

​Íhlutun - Ígrundun

Leiðbeiningar varðandi innskráningu á Padlet voru útbúnar áður en tímabilið hófst. Þegar nemendur mættu í kennslustundir og voru ekki vissir hvernig ætti að skrá sig inn á Padlet, benti rannsakandi þeim á leiðbeiningarnar. Í fyrstu báðu nemendur oft um aðstoð þegar kom að innskráningu og benti rannsakandi þeim þá á leiðbeiningarnar. Með tímanum fækkaði fyrirspurnum mjög og ef nemendur spurðu, var annar nemandi fljótur að benda þeim á leiðbeiningarnar. Aðspurðir töldu flestir nemendur innskráninguna hafa gengið vel. Tveir nemendur tóku það fram að þeir vildu að það hefði verið einfaldara en fimm sögðu að það hefði verið flókið í byrjun en síðan orðið einfaldara þegar leið á tímabilið.


Líkt og á þriðja tímabili fengu nemendur að sjá sýnidæmi af Padlet sniðmátunum við upphaf tímabils. Þeir nemendur sem voru óákveðnir skoðuðu sýnidæmin síðan nánar í eigin spjaldtölvu áður en þeir völdu sér snið. Það voru ekki allir nemendur sem nýttu sér það en möguleikinn er til staðar fyrir þá sem vilja. Þetta þýðir að rannsakandi þarf ekki að eyða miklum tíma í að kynna sniðin í þaula heldur geta þeir nemendur sem vilja, kynnt sér sniðin nánar og þeir sem vilja drífa sig af stað geta gert það. Hver nemandi getur því unnið þessa upphafsvinnu á sínum hraða. 

Langflestir nemendur voru ánægðir með Padlet og ferilbókagerðina. Fjórir nemendur voru á öðru máli og nefndu ólíkar ástæður vegna þessa. Einum nemanda fannst ferilbókagerðin erfið og taldi það hafa hindrað hann í að gera góða ferilbók. Annar sagðist hafa gleymt að setja inn í ferilbókina og því væri hún ekki góð heimild fyrir hans vinnu. Einum nemanda fannst ferilbókagerðin hreinlega leiðinleg og annar taldi sig ekkert vita hvað hann væri að gera. Einn nemandi nefndi að honum þætti ekki gott að hafa mikið val, vildi heldur vera sagt hvað hann ætti að gera. Hinsvegar töldu hinir nemendurnir að þeim þætti mikilvægt að fá sjálfir að hafa áhrif á það hvernig þeir gerðu ferilbókina. Þá tók einn nemandi fram að honum þætti mikilvægt að ferilbókin sé geymd í einhverskonar skýi og að hægt sé að vinna í ferilbókinni heima við.

Á meðan á tímabilinu stóð var rannsakandi meðvitaður um að grípa tækifærin til þess að stuðla að umræðum varðandi rannsóknina og heyra hlið nemenda. Þá mynduðust oft eðlilegri og dýpri samræður en þegar nemendur upplifa sig tilneydda við upphaf hvers tímabils. Umræðuefnin komu þá oft frá þeim og kveiktu áhuga þeirra nemenda sem heyrðu og oft urðu til líflegar samræður þar sem rannsakandi fékk innsýn í upplifun nemenda af ferlinu. Sá hængur er hinsvegar á að rannsakandi hefur ekki eins góð tök á því að punkta hjá sér og skrifa niður í slíkum aðstæðum.

Við lok hvers tíma og þegar nemendur luku hluta af verkefni, þurftu þeir að ígrunda. Rannsakandi leiddi nemendur sérstaklega í gegnum þennan hluta og gaf nemendum aukið svigrúm til þess að ljúka ígrundun. Þetta fyrirkomulag reyndist vel, yfirsýnin yfir ferlið jókst til muna og nemendur voru meðvitaðri um það hvað þeir væru að gera. Ígrundunin var ekki löng í hvert skipti en það telur rannsakandi að sé eðlilegt þar sem nemendur voru að temja sér ný vinnubrögð. Hugsanlega muni hún lengjast og dýpka þegar fram líða stundir. Nemendur þurfa hinsvegar mikla leiðsögn þegar kemur að ígrundun. Þeir muna illa á milli tíma hvernig þeir eiga að nálgast hana og þurfa leiðsögn í hvert skipti. Einn nemandi nefndi að honum þætti mjög gott að matið byggist á ferilbókinni þar sem oft færi eitthvað úrskeiðis í ferlinu sem hefði það að verkum að lokaútkoman væri lítil sem engin en þá sýndi ferilbókin allt það sem viðkomandi hafði lagt á sig og gert, óháð lokaafurð.

Sem áður gekk illa að leggja fyrir heimaverkefni. Þar sem fyrsta kennslustundin fór að mestu í kynningu, undirbúning og umræður, lá vel við að fyrsta heimaverkefnið væri að nemendur myndu finna hið minnsta þrjár hugmyndir af verkefnum. Líkt og á þriðja tímabili varð það eina heimaverkefnið.

Hugsanlega gleymist að leggja heimaverkefni fyrir í lok tímans þar sem mikill asi einkennir oft lok kennslustunda. Þá eru nemendur að sinna skrásetningu, ígrundun og frágangi.

Fjórða tímabil: About My Project
bottom of page