Námsvitund
Undanfarin atriði, þ.e. umgjörð um nám, einstaklingsmiðun, ígrundun og námsstuðningur eiga það sameiginlegt að geta leitt til öflugri námsvitundar nemenda. Að búa til námsumhverfi og beita kennsluháttum sem gera nemendum kleift að auka námsvitund sína telur rannsakandi vera megin markmið eigin kennslu. Reid (2005, bls. 10) hefur greint yfirsýn og ígrundun sem lykilþætti í því að efla námsvitund nemenda. Eisner (2002, bls. 37) tekur í sama streng og nefnir ígrundun og túlkun sem megin atriði sem stuðli að námsvitund. Það má álykta að umhverfi sem styður við ígrundun ásamt stöðugri áminningu um að sinna þeim þætti, leiði til aukinnar námsvitundar nemenda.
Aukin námsvitund sást að einhverju leyti undir lok skólaársins þegar nemendur fóru að aðlaga útlit, uppsetningu og færslur ferilbókarinnar. Í fyrstu völdu nemendur að nýta hefðbundnari tjáningarmiðla, þ.e. texta og mynd, líkt og áður hefur komið fram. Nemendur byrjuðu síðan að prufa sig áfram og setja inn annars konar færslur, oft vegna tilmæla kennara. Á seinni tímabilum fóru einhverjir nemendur að setja inn annars konar færslur að sjálfsdáðum og hluti nemenda valdi að setja inn eingöngu eina tegund færslna. Þeir nemendur sem komu oftast í sjónlistir fóru að halda sig við eina tegund af sniðmáti á Padlet og setja bækurnar upp á svipaðan hátt. Þeir völdu oft bakgrunn og stíl sem myndaði heildrænt útlit þvert á ferilbækurnar. Því má álykta að nemendur hafi komist skrefinu nær því að aðlaga námið að eigin námsstíl og efla eigin námsvitund samanber Reid (2005, bls. 63).
Barrett (2011, án bls.) bendir á að námsvitund sé nemendum nauðsynleg þegar kemur að yfirfærslu þekkingar yfir á önnur fög. Eitt þeirra verkefna sem rannsakandi stendur frammi fyrir er að veita nemendum námstækifæri sem nýtast þeim í áframhaldandi námi. Ólíklegt er að stór hluti nemenda muni starfa við listsköpun og því mikilvægt að leggja áherslu á merkingarbært nám. Rannsakandi hefur valið að leggja áherslu á sköpunarferlið, skrásetningu þess og markvissa ígrundun, með það að markmiði að mæta þörfum allra nemenda og efla námsvitund þeirra. Það er færni sem nemendur geta yfirfært og nýtt sér í öðru námi. Rannsakandi telur að ferilbókagerð í virku lærdómssamfélagi geti stuðlað að því markmiði.