top of page

Lærdómssamfélagið

Samkvæmt DuFour, DuFour og Eaker (2009, án bls.) snýst lærdómssamfélagið um að skapa aðstæður þar sem þátttakendur læra stöðugt í sameiningu af sameiginlegri reynslu. Lærdómssamfélag rannsakanda og nemenda mætti þessari skilgreiningu að einhverju leyti. Á tíðum var erfitt að gefa gaum að upplifun nemenda, bæði vegna anna og vegna stuttra svara þeirra í rafrænu könnuninni. Innleiðingarferlið gekk misvel og var erfiðara að innleiða suma þætti en aðra. Færni rannsakanda jókst hinsvegar mikið og af ferlinu lærði hann margt en líkt og Bolam o.fl. (2005, bls. i) benda á er lærdómsamfélagið talin árangurrík leið til þess að efla færni kennara. Niðurstöður renna stoðum undir að þetta geti verið rétt.


Lærdómssamfélagið reyndist hentug leið til þess að gefa nemendum tækifæri til að vera virkir þátttakendur í þeim breytingum sem verið var að innleiða. Hord (1997, bls. 2) segir að mikilvægt sé að þeir sem breytingar nái til sé meðvitaðir um breytingarnar ef vel á til að takast. Með því að gefa nemendum hlutdeild í breytingarferlinu telur rannsakandi að þeir hafi öðlast aukna skuldbindingu gagnvart ferlinu og þar með náminu. Þetta fellur vel að því sem kemur fram hjá Mango (2015, bls. 53) sem segir að skuldbinding nemenda sé í grunninn virk þátttaka þeirra í virkum námstækifærum. 


Líkt og Rúnar Sigþórsson,Anna–Lind Pétursdóttir og Þóra Björk Jónsdóttir (2013, bls. 271) benda á telja nemendur sig almennt ekki fá að hafa áhrif á eigið nám. Niðurstöður sýnaað nemendur séu óvanir því að rödd þeirra hafi vægi en kunni að meta þegar þeir fá tækifæri til þess að taka virkan þátt í eigin námi samanber Dewey (1916, án bls.) og áherslu hans á lýðræðislega menntun nemenda. Því ályktar rannsakandi að þörf sé á að gefa meiri gaum að upplifun nemenda og þeirra skoðun þegar kemur að skuldbindingu í námi en líkt og Trowler (2010, án bls.) komst að er alger skortur á rödd nemenda í rannsóknum á skuldbindingu nemenda en rannsóknir voru gerðar á nemendum og þá fyrir stjórnendur eða stjórnvöld og þegar vitnað var í orð nemenda var það til að styrkja rökræðu annarra um málefnið.

Vescio, Ross og Adams (2008, bls. 81) segja að kostir lærdómssamfélags sé aukin skuldbinding allra aðila og að vissu leyti endurspegla niðurstöður slíkan ávinning. Rannsakandi upplifði þessa auknu skuldbindingu en líta má svo á að það hafi einnig verið vegna rannsóknarinnar sjálfrar og því ekki hægt að fullyrða að lærdómssamfélagið eitt og sér hafi valdið því. Nemendur nefndu aukna skuldbindingu í rýnihópum en þá var eingöngu um afmarkaðan hóp nemenda að ræða. Frekar mætti draga þá ályktun að nemendur hafi skort skuldbindingu í upphafi skólaárs þar sem þeir gleymdu stöðugt notendanöfnum og lykilorðum sínum og höfðu ekki fyrir því að leggja þau á minnið. 

Ekki er hægt að fullyrða að lærdómssamfélagið hafi stuðlað að betri árangri nemenda þar sem mat var ekki hluti rannsóknarinnar en Birna María Svanbjörnsdóttir, o.fl. (2015, bls. 1) telja að hlutdeild nemenda í lærdómssamfélagi geti leitt til aukinnar frammistöðu. Hinsvegar voru nemendur meðvitaðir um að ferilbókin yrði grundvöllur mats og tóku nokkrir sérstaklega fram að einnig yrði að taka tillit til hegðunar í kennslustundum. Því má álykta að nemendur hafi haft öll möguleg tækifæri til þess að taka ábyrgð á eigin frammistöðu. Ekki var um nein hegðunarvandamál að ræða, frekar einstaka nemandi sem lagði sig ekki fram eða sýndi metnað. Langflestir nemendur tóku ábyrgð og skiluðu sínum ferilbókum fullunnum. Einungis tveim ferilbókum var ábótavant. 

Ferilbækurnar voru góð endurspeglun vinnuframlags nemenda og voru skýr tengsl á milli framkomu í tímum og gæðum ferilbókanna. Það er í takt við niðurstöður Chi-Cheng og Bing-Hong (2012, bls. 268) þar sem fram kom að fylgni er á milli mats á ferilbók og annars konar mati á nemendum, því má álykta að ferilbækur séu í raun góður grundvöllur mats. Hinsvegar telur rannsakandi áreiðanlega niðurstöðu mats ekki vera megin tilgang rafrænna ferilbóka, öllu fremur er áherslan á sjálfstæði nemenda í námi og námsferlið sjálft. 


Þá má álykta að sýnileiki og stöðugt aðgengi rannsakanda að ferilbókunum hafi spilað eitthvert hlutverk. Nemendur vissu að rannsakandi gat skoðað ferilbækurnar hvenær sem er á ferlinu og gefið nemendum ábendingar og uppbyggilega gagnrýni. Í flestum tilvikum voru það nemendur sjálfir sem báðu rannsakanda um að skoða bókina til þess að leiðbeina þeim. Nemendur sýndu einnig hver öðrum bækurnar sínar til þess að læra hver af öðrum. Þannig stuðlaði sýnileiki og aðgengi að eflingu lærdómssamfélagsins. Það samræmist niðurstöðum Hicks (2007, bls. 451) um mikilvægi sýnileika náms. Nemendur geta sýnt öðrum ferlið og afurðir eigin vinnu, foreldrar geta fylgst með námi barna sinna, samkennarar og stjórnendur geta séð það starf sem fram fer í námrýminu og lærdómssamfélagið í heild eflist.

Duffy o.fl. (2004, bls. 3) halda því fram að aukin skuldbinding geti leitt til færri fjarvista en það kom ekki sérstaklega fram í rannsókninni þar sem ekki var um samanburðargögn að ræða. Hinsvegar var lítið um fjarvistir nemenda í tímum en ekki er hægt að fullyrða um að lærdómssamfélagið eitt og sér hafi ollið því þar sem ýmiss annars konar samhliða vinna átti sér stað til þess að reyna að draga úr fjarvistum nemenda. Hins vegar sýndu rýniviðtölin ánægju nemenda með vinnuna og mat á ferlibókunum sem gefa vísbendingar um ánægju við verkefnavinnuna sem leiðir af sér skuldbindingu. Einnig má álykta að áhugi nemenda skipti máli en eins og Knogler o.fl. (2015, bls. 47) benda á þá getur áhugi verið bæði persónubundinn og aðstæðubundinn.Persónubundinn áhugi er hinsvegar mun stöðugri og beinist oft að ákveðnum þáttum samkvæmt Renninger og Hidi, (2011, án bls.) en þessir tveir þættir, vinni saman til þess að mynda áhuga nemenda og slíkt er hægt að sjá í starfendarannsókninni þar sem áhugi nemenda sneri bæði að ferlinu og því að vinna saman í tímum.


Sameiginleg reynsla rannsakanda og nemenda ásamt reglulegri ígrundun, varð til þess að breyta kennsluháttum. Buysee, Sparkman og Wesley (2003, bls. 266) greindu lærdómssamfélög sem eina leið til þess að gefa reynslu aukna merkingu. Að mati rannsakanda var ígrundun mun meiri af hálfu rannsakanda heldur en nemenda sem er líklega eðlilegt en ígrundun nemenda var þó gefið vægi og var mótandi afl rannsóknarinnar.


Lærdómssamfélagið gaf rannsakanda færi á að stunda markvissa símenntun og þróa starf sitt á þýðingarmikinn hátt og í raun var um ákveðna endurskilgreiningu á símenntun rannsakanda líkt og Hord (1997, bls. 89) leggur áherslu á. Í raun uppgötvaði rannsakandi nýja leið til náms, þ.e. að læra með nemendum sínum. Það eru þeir sem starf rannsakanda snýr að og því eðlilegt að læra af þeirra upplifun af náminu. Þetta samstarf hefur gefið rannsakanda nýja sýn og reynslu til þess að vinna úr en vert er að taka fram að þó rannsókninni sé lokið mun lærdómssamfélagið halda áfram að vaxa. Louis, Kruse og Marks (1996, bls. 181) lögðu sérstaka áherslu á að móta sameiginleg gildi og sýn þegar lærdómssamfélag mótast og er það eitt þeirra atriða sem rannsakandi gaf ekki nægilegan gaum. Hinsvegar varð til sameiginleg sýn rannsakanda og nemenda sem mótaðist í gegnum allt ferlið. Nemendur vöndust því að fá að hafa skoðun á eigin námi á nýjan hátt, þ.e. þeir þurftu að færa rök fyrir máli sínu en fengu í staðinn áheyrn og hugsanlega tækifæri til þess að breyta kennsluháttum og hafa þannig áhrif á eigið nám.

Greinileg þörf er á að efla lærdómssamfélög á Íslandi, samanber rannsókn Birnu Maríu Svanbjörnsdóttur o.fl. (2015, án bls.) en rannsakandi vill leggja aukin þunga á hlut nemenda í því tilliti. Það eru nemendur sem námið snýst um. Þeir eiga rétt á þátttöku í ákvörðunum sem hafa bein áhrif á framtíð þeirra og gæði lífs samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (I hluti/1989) og hefur Ísland fest þann samning í lög (lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 12 og 13/2013). Enn fremur leggur Aðalnámskrá grunnskóla (2011, bls. 21) mikla áherslu á rétt barna til þátttöku og lýðræðislega starfshætti skóla. Það er undir kennaranum komið að byggja upp námsumhverfi sem leggur áherslu á þennan rétt nemenda og nota kennsluaðferðir sem gefa nemendum tækifæri til þess að framfylgja þeim rétti. Rannsakandi telur mikilvægt að stuðla að markvissum breytingum á því starfi sem fram fer í námsumhverfi nemenda til þess að þessi réttur þeirra verði virtur.

Það eru einmitt þessar breytingar sem rannsakandi vildi stuðla að og gaf hann nemendum markvisst tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast, bæði með samræðum við upphaf hvers tímabils, óformlegu spjalli á meðan á ferlinu stóð, rafrænum könnunum þar sem nemendur fengu tækifæri til þess að koma skoðunum á framfæri nafnlaust og að lokum úrtak nemenda við lok skólaárs. Þar kom í ljós að nemendur hafa miklar skoðanir á því hvernig þeir læra, þó svo að það hafi tekið þá tíma að vera í stakk búnir til þess að eiga í uppbyggilegum samræðum þar um. Til þess að það takist þarf að skapa umhverfi og aðstæður sem gefa nemendum tækifæri til þess að eiga í þessum samræðum með kennurum sínum, ígrunda markvisst og efla sameiginlegt námsumhverfi kennara og nemenda.

Lærdómssamfélagið: Intro
bottom of page