top of page

Námsstuðningur

Eitt af megin þemunum sem niðurstöður leiddu í ljós var mikilvægi námsstuðnings. Rannsakandi rak sig fljótt á að leggja ekki inn of mörg forrit þar sem nemendur virtust missa yfirsýn í þeim aðstæðum og töldu ferilbókagerð flókna. Þar má nýta markvissan námsstuðning og gæta þess að leiða nemendur skref fyrir skref í gegnum nýjar aðferðir og forrit líkt og Dickson, Chard og Simmons (1993, án bls.) benda á. Þegar rannsakandi byggði nálgun sína á kenningu Vygotsky (1978, bls. 86) um svæði hins mögulega þroska og gætti að því að einblína fyrst á innlögn ferilbókarinnar og þeirra forrita og aðferða sem þeir þurftu að beita til þess að útbúa hana, gekk nemendum mun betur og sýn þeirra á ferilbókina var jákvæð. 


Þegar leið á skólaárið gekk mun betur að auka við færni nemenda og kynna þeim smá saman ný forrit og fjölbreyttar leiðir til tjáningar. Það telja Rosenshine og Meister (1992, bls. 26) vera ávinning þess að nýta markvissan námsstuðning. Nemendur urðu sjálfstæðari og voru iðnir við að aðstoða hvern annan. Ábyrgð þeirra á eigin námi sem og námi samnemenda sinna, virtist aukast líkt og Wass, Harland og Mercer (20011, án bls.) telja geta verið áhrif námsstuðnings. Þetta kom bersýnilega í ljós þegar nýir nemendur komu í sjónlistir. Þeir nemendur sem höfðu komið áður kenndu samnemendum sínum á ferilbókagerðina á meðan rannsakandi hélt áfram sinni áætluðu kennslu.


Rannsakandi átti í miklum samræðum við nemendur og var það ein gagnaöflunaraðferðanna. Það var í gegnum þessar samræður sem hann beitti virkum námsstuðning en Abdu, Schwartz og Mavrikis (2015, án bls.) greindu samræður sem eina meginaðferð námsstuðnings. Í gegnum samræður fjallaði rannsakandi um mikilvægi ferilbókarinnar og ástæðurnar sem lágu að baki þessarar nýju áherslu. Þetta á sérstaklega við um ígrundunarhlutann líkt og áður var nefnt. Þá kom námsstuðningur sterkt inn með stöðugu utanumhaldi og aðgengilegum leiðbeiningum.


Samræður rannsakanda við nemendur varð einnig til þess að þeir áttu í samræðum sín á milli og studdu hvern annan. Þegar leið á skólaárið voru nemendur mjög duglegir að benda hver öðrum á ýmsar bjargir sem voru þeim aðgengilegar í kennslurými eða rafrænt. Það létti mikið á álagi á rannsakanda sem gat þá einbeitt sér að öðru þáttum í kennslunni. Það var ekki nóg að setja upp hinar ýmsu bjargir, nemendur þurftu að fá endurteknar leiðbeiningar um það hvernig ætti að nýta sér þær. Þarna kemur aftur í ljós hversu mikilvægt er að halda innleiðingu aðferða til streitu og veita nemendum markvissan námsstuðning. Það getur tekið mikinn tíma að veita nemendum nauðsynlegan stuðning en þegar á líður mun það skila árangri.


Samkvæmt Radford o.fl. (2015, án bls.) er námsstuðningur ein leið til þess að aðlaga nám að námsstíl nemenda. Almennt voru færslur nemenda einhæfar, helst myndir og texti og virtust nemendur ragir við að setja inn aðrar tegundir af færslum. Rannsakandi nýtti námsstuðning til þess að kynna nemendum alla þá möguleika sem rafræn ferilbókagerð býður upp á og kenndi þeim að setja inn fjölbreyttari færslur á borð við þær sem nefndar voru hér að ofan. 


Greinilegur munur var á sjálfstæði nemenda við lok skólaárs miðað við fyrstu vikurnar. Því skilaði námsstuðningurinn greinilegum árangri. Rannsakandi telur mikilvægt að fylgjast vel með framgangi ferilbókagerðarinnar og vera vakandi fyrir því að beita öflugum námsstuðningi bæði þegar nýir nemendur hefja nám í sjónlistum og þegar leggja á inn nýjar aðferðir og tækni.

Námsstuðningur: Intro
bottom of page