top of page

Rafrænar ferilbækur

Ferilbækur (e. portfolios) eru þekkt fyrirbrigði í ýmsum greinum, bæði innan menntakerfisins og annars staðar. Ferilbækur hafa margvíslegan tilgang þar sem sumar snúast um nám, aðrar miða að mati, sumar miða að atvinnuleit og/eða markaðssetningu eða til að sýna bestu verk viðkomandi (Barrett, 2011, án bls.; Blaikie, Schonau og Steers, 2004, bls. 303). Listamenn og hönnuðir hafa lengi notað ferilbækur, bæði sem skyssubækur sem ekki voru ætlaðar til skoðunar fyrir aðra en þá sjálfa og til þess að sýna verk sín, oft í þeim tilgangi að sækjast eftir verkefnum en þá er gjarnan um að ræða samansafn af bestu verkum viðkomandi (Barrett, 2011, án bls.; Fahey og Cronen, 2016, bls. 4). Ferilbækur eru þekktar sem matstæki í leikskólum hér á landi, samanber Þemahefti um námsmat í leikskólum (2013, bls. 19).


Ferilbækur eiga sér langa sögu en rafrænar ferilbækur eru tiltölulega nýjar af nálinni. Þær eru, líkt og nafnið gefur til kynna, eingöngu á rafrænu formi og bjóða upp á ýmsa möguleika sem hin hefðbundna ferilbók gerir ekki. Með tilkomu Internetsins hefur ferilbókagerð öðlast áður óþekkta kosti og möguleikar þeirra margfaldast. Hefðbundnar ferilbækur bjóða ekki upp á sömu skilvirkni og þær rafrænu gera en þær bjóða upp á að setja inn fjölbreyttar færslur og tengja ýmisskonar gögn við ferilbækurnar með ofurmiðlun (e. hypermedia) (Barrett, 2011, án bls.; Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 265). Þá taka rafrænar ferilbækur ekki rými, utan við stafrænt rými (Canada, 2002, án bls.) og eru oft mun ódýrari en hefðbundnar ferlibækur (Heath, 2005, án bls.). Rafrænar ferilbækur mætti því skilgreina sem samansafn af margmiðlunar verkum nemenda sem eru geymd rafrænt (Niguidula, 2005, bls. 44).

Rafrænar ferilbækur: Intro

Rafrænar ferilbækur í námi og kennslu

Í dag eru ferilbækur notaðar á öllum sviðum menntunnar. Samkvæmt venju voru þær nýttar til þess að safna saman og halda utan um verk nemenda (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 266; Cyprus Pedagogical Institute, 2015, bls. 6). Hinsvegar má sjá nýrri dæmi um ferilbókagerð í skólum í annars konar tilgangi (Barrett, 2011, án bls.; Hicks o.fl., 2007, bls. 450). Ferilbækur hafa verið nýttar til þess að koma bestu verkum nemenda á framfæri, sýna fram á að nemendur hafi mætt markmiðum, skjalfesta framfarir nemenda í námi, bæði yfir lengri og styttri tíma, halda til haga sýnidæmum úr ákveðnum eða öllum fögum yfir tiltekið tímabil, halda utan um ákveðið verkefni eða afmarkaðan feril, miðla verkum nemenda til kennara, samnemenda, foreldra og annarra ef við á (Niguidula, 2005, bls. 45). Þrátt fyrir margvíslegan tilgang með ferilbókagerð má segja að helst sé um þrjá megin þætti að ræða; til þess að sýna ferlið, til þess að sýna bestu afurð og til þess að meta (Abrami og Barrett, 2005, án bls.; Fahey og Cronen, 2016, bls. 4). 

     

Þegar unnið er með rafrænar ferilbækur eru ýmiss atriði sem þarf að íhuga. Gæta þarf þess að hafa skýra sýn á það hvaða hæfni er sóst eftir og hvert innihald ferilbókanna skal vera; hver tilgangurinn sé með því að safna verkum nemenda saman; hverjir hafa aðgang að bókunum; hvort hægt sé að nýta innihaldið við mat; hvaða tækni er til staðar sem getur nýst við gerð bókanna og; hvernig best sé að safna efni í bækurnar (Niguidula, 2005, bls. 45). 


Snið ferilbóka getur einnig verið margvíslegt og byggir að einhverju leyti á því hver tilgangur þeirra er. Nota má kerfi sem hafa sérstaklega verið hönnuð fyrir skóla eða stofnanir þar sem sniðið er fyrirfram ákveðið og nemendur fylla í raun inn í það (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 265). Aðrir hafa nýtt blogg sniðið þar sem nemendur setja inn færslur og geta sett inn athugasemdir við færslur annarra (Hicks o.fl., 2007, bls. 454). Hinsvegar eru til margvísleg forrit sem gefa ýmsa möguleika í gerð rafrænna ferilbóka þar sem byrjað er frá grunni og nemendur hanna sjálfir útlit og snið. Möguleikarnir eru því margskonar allt eftir tilgangi þeirra (Hicks o.fl., 2007, bls. 450) 


Markmið ferilbókanna byggir á því hvað í þær er sett. Ef markmiðið er að fylgjast með því hvort nemendur eru að mæta markmiðum þurfa kennarar að bjóða nemendum upp á endurtekin tækifæri til þess að sýna fram á það. Ef tilgangurinn er hinsvegar að sýna fram á framfarir nemenda þarf að raða sýnidæmum í rétta röð til að sýna fram á það (Niguidula, 2005, bls. 46). 

Umgjörð og yfirsýn

Með notkun rafrænna ferilbóka er auðvelt að halda utan um nám nemenda, hvort heldur sem er almennt, á ákveðnu tímabili eða í ákveðnum verkefnum. Nám nemenda verður sýnilegt og auðvelt er að sýna fram það (Niguidula, 2005, bls. 45). Þetta á bæði við nemendur, foreldra og aðra sem gætu haft hag af því. Með heildrænu utanumhaldi öðlast bæði nemendur og kennarar betri yfirsýn yfir nám nemenda, framför og aðferðir (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 266). 

Það getur hjálpað sumum nemendum að fá þessa yfirsýn yfir nám sitt og verkefni sem þeir vinna. Þetta á sérstaklega við um nemendur sem nýta helst hægra heilahvelið til náms og hugsa sjónrænt (Reid, 2005, bls. 23). Með aukinni yfirsýn geta nemendur séð framfarir sínar og hvernig hæfni þeirra hefur aukist um leið og þeir taka ákvarðanir um næstu skref. Einn helsti kostur rafrænna ferilbóka er því sá að sýna nemendum hvernig þeir byggja á fyrri þekkingu og eflast og þroskast. Þannig getur sjálfstraust þeirra aukist sem hefur bein áhrif á námsárangur (Niguidula, 2005, bls. 47).

Með því að skapa umgjörð og halda utan um eigið nám getur ferilbókagerð gefið nemendum tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í eigin merkingarsköpun (Love og Cooper, 2004, án bls.) ásamt því að gefa þeim tækifæri til ríkari hlutdeildar í eigin námi (Barret, 2005, án bls.).



Aðlögun og sjálfstæði


Rafrænar ferilbækur bjóða upp á marga möguleika þegar kemur að aðlögun í námi. Nemendur geta fengið tækifæri til þess að sníða ferilbækurnar að eigin þörfum, bæði hvað varðar útlit, skipulag og innihald. Einn helsti kostur við rafrænar fremur en hefðbundnar ferilbækur er sá að hægt er að leggja áherslu á ólíka tjáningarmiðla (Hicks o.fl., 2007, bls. 450; Niguidula, 2005, bls. 47) og veita nemendum tækifæri til þess að sýna fram á skilning sinn með þeim tjáningarmáta sem þeim hentar. Ritun og lestur getur verið nemendum fjötur um fót en þegar námið verður rafrænt opnast nýir möguleikar. Í ákveðnum tilfellum gæti nemendum þótt betra að vinna rafrænt, hvort sem um er að ræða skrif, lestur, teikningu, hönnun eða annað þess háttar. Það hindrar hinsvegar ekki þá sem kjósa að gera fyrrnefnd atriði á hefðbundinn hátt, til að mynda að handskrifa texta eða teikna á blað þar sem þeir geta fært þá vinnu yfir á rafrænt form inn í ferilbókina. Með rafrænum ferilbókum aukast því möguleikarnir við að læra á fjölbreyttan hátt þar sem áhersla er lögð á leiðir til náms frekar en vankanta nemenda. Þetta styður við félagslega sýn á fötlun þar sem áhersla er lögð á færni og jöfn lífsgæði samanber umfjöllun Norwich (2013, bls. 20–21).

Með þessari auknu aðlögun gefst nemendum einnig færi á að sýna sjálfstæði í námi (Niguidula, 2005, bls. 45). Nemendur með leshömlun geta nýtt sér snjalltæki og forrit til þess að skanna inn texta, láta talgervil lesa upp leiðbeiningar, skrifa svör á lyklaborð, taka upp hljóð eða myndband. Þetta geta þeir gert án þess að kennarinn þurfi að aðstoða þá sérstaklega sem gefur þeim færi á að vinna samhliða jafningjum sínum í stað þess að telja sig vanhæfa sem er mikilvægt ef nám á að eiga sér stað (Reid, 2005, bls. 12). Áríðandi er að nemendur geti mætt þeim kröfum sem á þá eru lagðar og hafi verkfæri í höndunum sem þeir þurfa til að ná markmiðum sínum eins og Norwich, (2013, bls. 20–21) bendir á. Í því samhengi geta ferilbækur verið eitt þeirra verkfæra.



Samvinna og sýnileiki

Rafrænar ferilbækur bjóða upp annars konar tækifæri til samvinnu nemenda sem og samvinnu nemenda og kennara en aðrar leiðir, þar sem hægt er að vinna saman án þess að vera á sama stað og á sama tíma. Í gegnum ferilbækur geta samnemendur og kennarar unnið að sama ferlinum og metið verk hvers annars, allt í gegnum netið (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 265–266). Það fer auðvitað eftir tilgangi og tækjakosti hvort það sé ákjósanlegt að vinna í gegnum netið en sá möguleiki er þó fyrir hendi. Einnig mætti tengja saman það nám sem fer fram heima við námið í skólanum. 

Þegar vinna nemenda er komin í rafrænar ferilbækur, opnast sá möguleiki að fleiri geti séð hana (Fahey, Lawrence og Paratore, 2011, án bls.; Hicks o.fl., 2007, bls. 450). Hicks o.fl., (2007, bls. 451) segja að nemendur geti t.d. sýnt samnemendum sínum verk sín, foreldrar öðlist tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna, kennarar eiga auðveldara með að sýna samkennurum sínum eða skólastjórnendum það starf sem þeir sinna og kennarar sem kenna sömu fög geta fengið hugmyndir.



Ígrundun og námsvitund


Rafrænar ferilbækur eru tilvalinn vettvangur fyrir ígrundun nemenda þar sem þeir lýsa og greina eigið nám (Hicks o.fl., 2007, bls. 450; Niguidula, 2005, bls. 47) en oft hefur reynst erfitt að innleiða reglulega ígrundun í nám og kennslu (Cleveland, 2018, bls. 276). Ferlið sem á sér stað við gerð rafrænna ferilbóka er hugsað sem leið til þess að ígrunda eigið nám, íhuga hvað viðkomandi er nú þegar búin að gera og kynnast ólíkum aðferðum og miðlum sem má nota í námi (Hicks o.fl., 2007, bls. 451). Til að auðvelda ígrundun bendir Niguidula (2005, bls. 47) á að nota kveikju eða spurningar til þess að aðstoða nemendur við ígrundun. Þegar nemendur þurfa að færa rök fyrir því af hverju ákveðin færsla mætir þeim kröfum sem gerðar eru eða hvernig hún tengist námi þeirra, þá öðlast þeir aukinn skilning á því hvað felst í markmiðunum. 

Með betri yfirsýn yfir námsferilinn, hafa nemendur fleiri tækifæri til þess að vera meðvitaðri um það sem þeir gera dags daglega og hvernig þeir byggja upp þekkingu sýna. Sér í lagi ef nemendur þurfa að íhuga hvernig verk þeirra tengjast námi og þroska. Með bættri yfirsýn og ígrundun, eykst námsvitund nemenda. Hún er nemendum nauðsynleg til að auka námsárangur og yfirfæra þekkingu á önnur fög (Barrett, 2011, án bls.; Reid, 2005, bls. 10). Rafrænar ferilbækur bjóða einnig upp á ólíka nálgun og/eða útfærslur eftir þörfum nemanda og geta því nýst við að aðlaga nám að námsstíl þeirra sem gefur þeim frekari tækifæri til að efla eigin námsvitund (Reid, 2005, bls. 63). 

Eisner, (2002, bls. 37) tekur í sama streng og segir að í gegnum ferilbókargerð fái nemendur tækifæri til að sýna fram á það sem þeir hafa lært. Rafrænar ferilbækur gefa þeim tækifæri til að túlka og ígrunda ferlið sem getur haft áhrif á námsvitund þeirra. Darling (2001, án bls.) bendir þó á að ígrundun er nemendum ekki töm og þurfa þeir mikla handleiðslu og þjálfun þegar að þeim þætti kemur.

Mat og endurgjöf

Rafrænar ferilbækur geta verið grundvöllur fyrir námsmati og hafa löngum verið nýttar á þann hátt. Hér á landi eru ferilbækur algengar sem matstæki í leikskólum (Lilja Björk Ólafsdóttir, 2009, bls. 45). Rafrænar ferilbækur hafa ýmsa kosti þegar kemur að mati sem hefðbundið mat bíður ekki upp á. Vinna nemenda er aðgengileg sem og þeirra eigin ígrundanir um námið. Nemendur hafa ef til vill fengið tækifæri til þess að nota nýja tjáningarmáta sem þeim eru tamari og geta því betur sýnt fram á hæfni sína. Kennarinn hefur góða yfirsýn yfir ferlið sem og hvern þátt þess, en mikilvægt er að meta rafrænar ferilbækur bæði í heild sem og einstaka færslur (Niguidula, 2005, bls. 47). 

Chi-Cheng og Bing-Hong, (2012, bls. 266) taka í sama streng og segja að rafrænar ferilbækur bjóði upp á fjölbreyttar leiðir til mats hvort sem um er að ræða símat, sjálfsmat eða lokamat. Það er hinsvegar undir hverjum kennara komið hvernig staðið er að matinu. Mat er oft prófamiðað sem leiðir af sér að kennslan miðar að því að nemendum gangi vel í prófum. Þannig kennsla gefur lítið svigrúm til þess að nemendur fái að prófa sig áfram og gera mistök. Það eru hinsvegar mistökin sem geta leitt af sér nám. Það getur verið erfitt að innleiða kennsluhætti sem gefa færi á mistökum en rafrænar ferilbækur eru ein leið til þess að gera ráð fyrir tilraunum sem ekki eru mögulegar víða annars staðar (Fahey og Cronen, 2016, bls. 3).

Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að fylgni er á milli mats á ferilbók og annars konar mati á nemendum, því má álykta að ferilbækur séu í raun góður grundvöllur þegar kemur að mati. Einnig virðist vera mikil samsvörun í mati tveggja einstaklinga á sömu ferilbókum (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 268). 

Rafrænar ferilbækur: About My Project

Takmarkanir rafrænna ferilbóka

Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að rafrænar ferilbækur geti haft jákvæð áhrif á gæði náms eru þær ekki án galla. Nemendur eru margvíslegir og þarfnast ólíkra aðferða. Rafræn vinna hentar því ekki öllum. Almennt getur notkun rafrænna ferilbóka aukið frammistöðu nemenda þegar kemur að markmiðasetningu, ígrundun, sjálfsmati og jafningjamati, samskiptum og samvinnu, gagnasöfnun, skipulagi, samfelldri framför og lausnamiðaðri hugsun (Chi-Cheng og Bing-Hong 2012, bls. 265–266). 

Það fyrsta sem þarf að huga að við gerð rafrænna ferilbóka er tækjabúnaður en án fullnægjandi internet tengingar og aðgangi að tölvum eða snjalltækjum, er hæpið að hægt sé að útbúa góðar ferilbækur sem endurspegla nám nemenda (Heath, 2005, án bls.; Pecheone, Pigg, Chung og Souviney, 2005, án bls.). Hinsvegar má vera að nemendur og þá sérstaklega eldri nemendur, séu nú þegar með aðgang að eigin snjalltæki til að gera vinnu með rafrænar ferilbækur mögulegar. Einnig má samnýta þann búnað sem er til í skólum en vissulega getur verið að engin tæki séu til staðar. Skortur á tækjabúnaði er því stundum hindrun í gerð rafrænna ferilbóka (Tosh, Light, Flemming og Haywood 2005, án bls.).

Niguidula (2005, bls. 45) bendir hinsvegar á að mikilvægara sé að huga að markmiðum, tilgangi og mati heldur en tækninni sem slíkri. Hicks o.fl. (2007, bls. 450) taka í sama streng og benda á að þó að tæknin bjóði upp á ríkulegt námsferli sem er í þágu bæði nemenda og kennara, verði það að byggja á þeim kröfum sem námskrár setja því án viðmiða eru rafrænar ferilbækur eingöngu margmiðlunar kynningar eða úrklippubækur.

Árangur af notkun rafrænna ferilbóka tengist því þeim markmiðum sem sett eru við gerð þeirra. Gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir á mati ferilbóka og hvort það sé marktækt. Rannsakendur hafa lýst því yfir að þörf sé á að þróa gagnlega matskvarða sem eru hannaðir til þess að meta rafrænar ferilbækur. Það krefst þó mikillar vinnu að útbúa vandaða kvarða (Zeichner og Wray, 2001, bls. 618; Niguidula, 2005, bls. 47). Smith og Tillema, (2003, án bls.) benda á að þó að til séu kvarðar til að meta hefðbundnar ferilbækur en þar sem rafræna nálgunin bjóði upp á áður óþekkta kosti í ferilbókagerð þá er nauðsynlegt að aðlaga kvarðana til þess að gera ráð fyrir margmiðlun, framsetningu upplýsinga og uppsetningu. Þau telja einnig að þetta þýði ekki að þau gögn sem styðja áreiðanleika mats á hefðbundnum ferilbókum eigi ekki við um mat á rafrænum ferilbókum. Hinsvegar er áhersla þessara matskvarða oft á færslur nemenda í stað þess að meta það nám sem átti sér stað (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 265). Hicks o.fl. (2007, bls. 451) segja ennfremur áhersluna í rannsóknum á árangri rafrænna ferilbóka því miður vera á mat á kostnað ígrundunar. Hefðbundið mat takmarkast því oft við skrifaðan texta sem nemendum er oft ekki töm tjáningaraðferð og getur það takmarkað mat. 

Það getur því verið vandasamt að útbúa gagnlega rafræna ferilbók. Það krefst tíma skuldbindingar og seiglu, bæði af hálfu nemenda og kennara (Chi-Cheng og Bing-Hong, 2012, bls. 265). Þetta á sér í lagi við þegar verið er að innleiða gerð rafrænna ferilbóka. Þrátt fyrir góðan undirbúning kennara er eins víst að þeir rekist á ýmsar hindranir þegar þeir tileinka sér áður óþekkt vinnubrögð. Að sama skapi getur nemendum þótt erfitt að breyta um starfshætti og mæta nýjum kröfum (Hauge, 2006, án bls.).

Rafrænar ferilbækur: About My Project
bottom of page