Réttmæti rannsóknarinnar og siðferðileg atriði
Rannsóknum þar sem börn taka þátt hefur fjölgað undanfarna áratugi (Clark og Moss, 2001, bls. vii). Í dag er orðið viðurkennt að æskilegt sé að börn séu þátttakendur í rannsóknum sem hafa bein áhrif á líf þeirra og að sýn þeirra á þau málefni sem þeim eru mikilvæg sé nauðsynleg (Nutbrown, 2010, bls. 5). Það er þó mikilvægt að valdar séu aðferðir sem henta börnum, aldri þeirra og þroska (Bolzan og Gale, 2011, bls. 269). Þegar rannsóknir eru gerðar á og með börnum þarf að huga að sömu atriðum og við aðrar rannsóknir, á borð við þagnarskyldu, meðferð gagna og að gæta virðingar í hvívetna. Hinsvegar þarf að huga sérstaklega að upplýstu samþykki varðandi þátttöku þegar rannsóknin snýr að börnum þar sem börn eru viðkvæmari fyrir stjórnun eldri aðila (Háskóli Íslands, 2014, bls. 4, 8, og 10).
Í aðdraganda og framkvæmd var gætt að því að undirbúa alla þá þætti sem komu að nemendum, sem best, með það í huga að þeir hafi nauðsynlegan grunn til að taka ákvörðun um þátttöku og síðan njóta sín í þátttökunni (Yardley, 2011, bls. 7). Rannsóknin var tilkynnt til persónuverndar sem og til skólans til að framkvæma rannsóknina. Einnig var vinnan tilkynnt til skólaskrifstofu og leyfi fengið fyrir rannsókninni. Foreldrar voru upplýstir um rannsóknina með kynningarbréfi. Litið var á þessa kynningu sem ígildi upplýsts samþykkis. Nemendum var kynnt rannsóknin og höfðu þeir val um hvort þeir tæku virkan þátt eða ekki. Óneytanlega var gagnasöfnun í formi dagbókarskrifa ávallt í gangi en nemendur gátu sleppt því að taka þátt í umræðum eða svara rafrænni könnun. Þátttaka í rýnihópum var val nemenda en allir þáðu boðið. Foreldrar þeirra voru upplýstir um þann þátt rannsóknarinnar sérstaklega og gefinn kostur á að koma með athugasemdir eða afþakka þátttöku.Krafan um upplýst samþykki er mikilvæg skylda rannasakenda, bæði siðferðilega og lagalega. Nemendur þurfa að vita hvað mun gerast, hvernig gögnin verða notuð og að þeir geta dregið sig út úr rannsókn hvenær sem er (Mukherji og Albon, 2010, bls. 44) og var það tilfellið í þessari rannsókn.
Í þessari rannsókn er litið á nemendur sem þátttakendur í rannsókninni með lærdómssamfélagið að leiðarljósi. Sú sýn samræmist Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sér í lagi þeim greinum sem leggja áherslu á rétt barna til þátttöku (Christiansen og Prout, 2002, bls. 481; lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 12 og 13/2013). Þrátt fyrir það má ávallt líta á að rannsóknir þar sem þátttakendur eru ólögráða, beri með sér ákveðna áhættu, óháð stöðu þeirra barna sem um ræðir (Nutbrown, 2010, bls. 5) og gætti rannsakandi fyllstu virðingar við nemendur.
Siðferðilegt jafnræði innan rannsókna, bæði á meðal barna og fullorðinna og á meðal nemenda og kennara er hugsjón sem ef til vill er ekki möguleg vegna þess ójafnvægis sem myndast bæði vegna aldurs og vegna valdastöðu kennarans (Mauthner, 1997, bls. 19). Staða rannsakanda sem yfirmaður nemenda hefur óneitanlega áhrif á lærdómssamfélagið sem hann vill mynda með nemendum. Það er því ekki hægt að mynda fullkomið jafnræði á milli kennara og nemenda og er það ef til vill helsta álitamál rannsóknarinnar. Eðli málsins samkvæmt er rannsakandinn sem kennari í valdahlutverki og er því vanda bundið að gæta jafnræðis, ná fram hugmyndum nemenda og gefa þeim vægi.
Að rannsaka listir og sköpunarferlið sem námsferli hefur aukist (Nutbrown, 2010, bls. 8) en erfitt getur reynst að fylgja siðferðilegum viðmiðum aðferðafræði rannsókna þegar kemur að listsköpun barna. Nutbrown (2010, bls. 5) segir að aukin áhersla á að velferð barna sem þátttakendur í rannsóknum hafi leitt af sér viðurkenndar aðferðir sem hamla því að rödd barna og sýn fái að heyrast. Mikilvægt sé að rödd barna heyrist en einnig þarf að gæta að velferð þeirra og rétt á nafnleysi í rannsóknum. Því eru allir þátttakendur rannsóknarinnar naflausir og aldrei er fjallað um einstaka nemendur á persónugreinanlegan hátt.
Huga þarf að listsköpun nemenda í þessu samhengi og hvort líta eigi á sköpunarferli nemenda líkt og það birtist í ferilbókum þeirra, sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Í bókunum birtast verk nemenda, hugsanir þeirra og mat á eigin vinnu. Þarna takast á tveir heimar, annars vegar heimur fræða og rannsókna sem takmarkast af ýmsum reglum og viðmiðum og heimur lista þar sem eiga við allt aðrar reglur eða engar reglur (Nutbrown, 2010, bls. 8).
Sýnt er fram á réttmæti rannsóknarinnar með skýrri umfjöllun um jákvæðar og neikvæðar hliðar innleiðingar rafrænna ferilbóka. McNiff og Whitehead (2010) fjalla um ýmis viðmið sem huga þarf að varðandi réttmæti. Þess á meðal er vel afmarkað viðfangsefni, skýr áætlun, greinargóðar lýsingar, mat á framkvæmd og íhlutun, að niðurstöður séu settar fram á aðgengilegan hátt og notaðar til breytinga. Allt þetta telur rannsakandi sig hafa uppfyllt.