top of page

Gagnaöflun og úrvinnsla

Rannsakandi byrjaði á því kynna sér margskonar aðferðir við gagnaöflun og þá sér í lagi gagnaöflun sem er algeng í starfendarannsóknum. Síðan valdi hann þær aðferðir sem hann taldi henta efni og umfangi rannsóknarinnar og voru raunhæfar í því umhverfi sem rannsóknin á sér stað, þ.e.a.s. kennslu og starfi rannsakanda á unglingastigi í grunnskóla. Ákvarðanirnar byggðu á ákveðinni forvinnu sem hafði nú þegar átt sér stað en undanfarin tvö skólaár höfðu ákveðnir nemendahópar unnið ferilbækur í sjónlistum. Annars vegar höfðu nemendur unnið hefðbundnar ferilbækur á pappír og hinsvegar höfðu nokkrir nemendahópar unnið rafrænar ferilbækur með misjöfnum árangri.


Líkt og fjallað var um í fræðilega kaflanum hér á undan eru til ýmiss forrit fyrir rafrænar ferilbækur. Þau eru eins ólík og þau eru mörg, bæði opin kerfi og lokuð. Rannsakandi kynnti sér mörg forrit til þess að velja það sem hentaði best hans starfskenningu, kennslu, fagi, aðstöðu og tækjakosti. Forritið þurfti því að mæta nokkrum skilyrðum. Það varð að virka í iOS stýrikerfinu þar sem skólinn á spjaldtölvurnar iPad og þeir ganga á því kerfi. Hinsvegar fannst rannsakanda það sérstakur kostur ef forritið virkaði að minnsta kosti iOS og Android þar sem það opnaði fyrir þann möguleika að nemendur gætu nýtt eigin snjalltæki í náminu, bæði í skóla og heima. Miklu máli skipti að hægt væri að setja sem flestar tegundir af rafrænum gögnum í ferilbækurnar, myndir, myndbönd, hljóð og texta. Sérstakur kostur var ef hægt var að setja inn slæðusýningar, hlaða upp skrám og festa (e. embed) gögn inn í bókina.

Rannsakanda þótti mikilvægt að forritið biði upp á að hver og einn nemandi væri með sína eigin ferilbók en einnig að nemendur hefðu aðgang að sameiginlegu svæði þar sem kennari gæti sett inn efni og leiðbeiningar. Þá var einnig mikilvægt að hægt væri að stjórna aðgengi að ferilbókunum þannig að gögn nemenda væru örugg en að sama skapi varð rannsakandi að hafa greiðan aðgang að þeim til leiðbeiningar og mats.

Eftir að hafa kynnt sér ýmiss ólík forrit, og borið þau saman, varð Padlet (https://padlet.com/) fyrir valinu þar sem forritið bauð upp á þá eiginleika sem rannsakandi var að leita eftir.

Gagnasöfnun rannsóknarinnar fór fram í fimm megin þáttum; Í fyrsta lagi var um að ræða umræðuhópa rannsakanda og nemenda, í öðru lagi dagbókarskrif höfundar, í þriðja lagi rafræna könnun til nemenda, í fjórða lagi mat á rafrænum ferilbókum nemenda og í fimmta lagi rýnihópa úrtaks nemenda. Allir þættirnir komu við sögu á hverju tímabili fyrir sig, utan við þann síðasta, rýnihópa, sem fóru fram við lok síðasta tímabils.

  1. Umræðuhópar áttu sér stað í fyrstu kennslustund hvers tímabils. Þar ræddu rannsakandi og nemendur fyrirhugaða íhlutun, þ.e. gerð ferilbóka. Ferilbókin og möguleikar hennar voru kynntir fyrir nemendum og þau markmið sem rannsakandi taldi að hún gæti mætt. Nemendur fengu tækifæri til að tjá skoðanir sínar á fyrirkomulaginu og koma með athugasemdir sem og tillögur til breytinga. Rannsakandi og nemendur fengu þar tækifæri til að eiga samtal, móta sameiginlega sýn og hvetja til samábyrgðar. Rannsakandi skráði hjá sér niðurstöður og nýtti þau atriði sem við áttu til þess að bæta kennslu.

  2. Rannsakandi hélt dagbók um ferlið á meðan á rannsókninni stóð. Hann skrifaði hjá sér bæði punkta og athugasemdir varðandi framgang verkefnisins. Áætlunin var að skrifa jafnt og þétt í tímum ef kennsla leyfði, strax að kennslu lokinni eða eins fljótt og auðið var. Gögnin nýtti rannsakandi sem grunn að breyttu fyrirkomulagi á næstu tímabilum.

  3. Rafræn könnun var lögð fyrir nemendur í síðustu kennslustund hvers tímabils og þar lögðu þeir mat á eigin reynslu af íhlutuninni. Þar svöruðu nemendur átta til tíu opnum spurningum, sjá viðauka. Spurningarnar vann rannsakandi út frá rannsóknarspurningunum og að þær gætu gefið hugmynd um hvað hefði tekist vel og hvað mætti betur fara. Niðurstöðurnar nýtti rannsakandi til þess að meta framgang rannsóknarinnar og endurmeta kennsluhætti.

  4. Rafrænar ferilbækur nemenda urðu til jafn óðum og þær notaði rannsakandi sem gögn. Þær voru grunnurinn að mati á frammistöðu nemenda sem og framgangi rannsóknarinnar. Rannsakandi skoðaði þær og greindi sniðmát sem nemendur völdu, fjölda færslna, gæði færslna, fjölda rafrænna verkfæra og miðla og bar þær saman við þær ferilbækur sem til voru frá fyrra skólaári, þegar rannsakandi byrjaði að prufa sig áfram með ferilbækurnar.

  5. Að íhlutunartímabilunum loknum, við lok skólaárs var þeim nemendum sem höfðu komið oftast í sjónlistir boðið að taka þátt í rýnihóp. Einn rýnihópur var í hverjum árgangi eða þrír allt í allt. Reiknað var með fjórum nemendum í hvern rýnihóp. Í hópunum var farið yfir þeirra reynslu af ferlinu. Samtalið var tekið upp og afritað. Rannsakandi rýndi í samtölin og greindi þau þemu sem komu endurtekið upp.

Í lok fyrstu fjögurra íhlutunartímabila fór fram endurskoðun þar sem íhlutunin var endurmetin í ljósi gagna úr (1) umræðuhópum, (2) dagbókarskrifa rannsakanda og (3) niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir nemendur. Við lok skólaársins voru niðurstöður teknar saman með tilliti til fyrrnefndra gagna sem og (4) rafrænna ferilbóka nemenda og (5) niðurstaðna rýnihópa.

Gagnaöflun og úrvinnsla: Intro
bottom of page