Fimmta tímabil
Fimmta tímabil varði frá 5. apríl til maíloka. Á því tímabili kenndi rannsakandi öllum árgöngum unglingastigs eða 13 nemendum í áttunda bekk, 11 nemendum í níunda bekk og 12 nemendum í tíunda bekk.
Endurskoðun - Áætlun
Á þessu stigi rannsóknarinnar voru ekki mörg atriði sem rannsakandi taldi þurfa að breyta enda rannsóknin að líða undir lok. Ákveðið var að leggja áherslu á að auðvelda aðgengi nemenda að leiðbeiningum varðandi ígrundun og stuðla að notkun fjölbreyttra miðla í gegnum heimaverkefni.
Til þess að efla ígrundun var áætlunin að útbúa aðgengilegar leiðbeiningar bæði varðandi mikilvægi hennar og leiðsögn í því hvernig sinna má ígrundun. Áætlað var að útbúa skjal sem mátti prenta út og plasta til þess að nemendur hefðu aðgang að þeim þegar þeir þurfa. Einnig ætlaði rannsakandi að setja skjalið inn á Padlet þannig að nemendur hafi aðgang að þeim rafrænt. Þannig vill rannsakandi auka sjálfstæði nemenda og minnka óþarfa álag í kennslu.
Þá var áætlunin að leggja sérstaka áherslu á að auka þekkingu nemenda á fjölbreyttum rafrænum miðlum. Þessi þáttur var undirbúin sérstaklega áður en tímabilið hófst en þá voru valin sérstök heimverkefni (sjá bls. 57) sem voru undirbúin og sett niður á ákveðna daga. Þannig vildi rannsakandi reyna að tryggja að þessi þáttur myndi skila sér þar sem um síðasta tímabil rannsóknarinnar var að ræða.
Íhlutun - Ígrundun
Þar sem um síðasta tímabil rannsóknarinnar var að ræða gekk flest mjög vel og bæði rannsakandi og sumir nemenda orðnir vanir ferlinu. Ferilbókagerðin gekk í flestum tilvikum vel enda hafði meginþorri nemenda komið áður. Þeir nemendur sem ekki þekktu kennsluhætti, lærðu fljótt enda umkringdir nemendum sem gátu aðstoðað þá við hvert skref. Aðspurðir hvað hefði mátt fara betur nefndu einungis tveir atriði sem tengdist ferilbókagerðinni sjálfri og það var að hafa meiri tíma í að vinna hana og að vera duglegri að skrásetja.
Við upphaf tímabilsins voru leiðbeiningar varðandi ígrundun komnar upp á vegg og á Padlet. Aðgengi nemenda að greinargóðum leiðbeiningum varðandi ígrundun skilaði sér í minna álagi á rannsakanda í kennslu. Nemendur spurðu oft ýmissa spurninga varðandi ígrundunina, hugsanlega vegna þess að þeir voru enn að temja sér hana. Núna benti rannsakandi nemendum á leiðbeiningarnar og nemendur gátu aflað sér upplýsinga sjálfir. Þegar leið á voru nemendur einnig duglegir við að benda samnemendum sínum á leiðbeiningarnar ef þeir spurðu.
Yfirgnæfandi ánægja var meðal nemenda um að ferilbókin væri grundvöllur mats en einungis einn nemandi var því ósammála. Hann taldi að frekar ætti að meta frammistöðu í tímum heldur en skrif í ferilbókinni. Annar nemandi tók það fram að hann hefði ekki náð að klára en var öruggur um að ferilbókin sýndi fram á mikla vinnu þrátt fyrir það og með það var hann ánægður.
Nemendur fengu nokkur mismunandi heimaverkefni (sjá bls. 57) til þess að sinna sem tengdust viðfangsefninu en þau hafði rannsakandi undirbúið áður en tímabilið hófst. Verkefnin gegnu öll út á það að kynna sér viðfangsefnið á þeim fjölmörgu streymisveitum og miðlum sem internetið bíður upp á, allt frá heimasíðum og Instagram reikningum til YouTube rása. Verkefnin fengu nemendur til þess að nýta sér tæknina í upplýsingaöflun, skrásetja niðurstöður á ólíkan hátt í ferilbókina og ígrunda val sitt. Ferilbækurnar voru mun ítarlegri og fjölbreyttari með verkefnunum en ekki er hægt að segja til um hvort nemendur muni nota möguleikana af sjálfsdáðum að svo stöddu. Það mun tíminn leiða í ljós.