Rýnihópar
Síðasti hluti gagnaöflunar voru rýnihópar. Rannsakandi bauð þeim nemendum unglingastigs sem oftast höfðu komið í sjónlistir, að taka þátt. Í áttunda og níunda árgangi voru fjórir nemendur sem höfðu komið alls þrisvar sinnum í sjónlistir og því tekið þátt í þrem tímabilum. Þeim var því boðin þátttaka og þáðu þeir boðið. Í tíunda árgangi hafði engin komið þrisvar sinnum en sjö nemendur komið tvisvar. Rannsakandi bauð tveimur drengjum og tveimur stúlkum að taka þátt sem þáðu það öll.
Nemendum var boðin þátttaka í rýnihóp og ef þeir þáðu þátttökuna, var kynningarbréf sent heim til foreldra. Hóparnir hittust undir lok skólaárs í vinnurýminu og voru samræðurnar teknar upp og síðan vélritaðar.
Niðurstöður voru nokkuð einróma en þar mátti greina fjögur þemu þvert á árganga og kyn. Þessi þemu einkenndu upplifun nemenda af ferlinu og mátti sjá greinilega á svörum þeirra. Þessi þemu voru umgjörð um nám, einstaklingsmiðun, ígrundun og námsstuðningur.
Umgjörð um nám
Það var ljóst að það utanumhald sem ferilbókagerð gaf nemendum, varð til þess að nemendur fengu aukna yfirsýn yfir það sem þeir höfðu gert, sem þeim líkaði vel. Þess ber að geta að þessir nemendur höfðu einungis unnið ferilbækur yfir einn skólavetur og í mesta lagi höfðu nemendur gert þrjár ferilbækur. Þeir gátu samt auðveldlega séð tilganginn og hver ávinningurinn yrði fyrir þá með framhaldandi ferilbókagerð. Meira að segja nemandi í tíunda árgangi, sem áttaði sig á því að hann myndi ekki gera fleiri ferilbækur þar sem hann væri að útskrifast sagði; „í tíunda bekk getur maður horft yfir allt og bara vá“. Hann gat því ímyndað sér hvernig nemandi í hans sporum eftir einhver ár, gæti átt samansafn að ferilbókum frá upphafi. Einn nemandi nefndi sérstaklega að hann vildi sjá í hvað hann hefði eytt tímanum í.
Auk þess að fá yfirsýn gefur utanumhald nemendum tækifæri á að skipuleggja sig. Einn nemandi sagði; „ég hefði ekki getað haldið utan um þetta jafn vel“ og fannst þessi aðferð og skipulag vinnu auðvelda honum að halda utan um eigin vinnu.
Utanumhald varð einnig til þess að vinna nemenda var skrásett og haldið til haga. Þar af leiðir upplifðu nemendur að þeir höfðu gert mun meira en áður sem endurspeglast í orðunum; „áður fór maður bara með verkin heim og henti þeim kannski“ og „þetta er þægilegra núna, finnst ég hafa gert meira“. Einn nemandi nefndi að hann hefði týnt verkum áður og hefði þá í raun glatað verkefninu og þurft að byrja upp á nýtt. Þrátt fyrir að nemendum hafi þótt erfitt að byrja, þá fannst þeim fyrirkomulagið mun hjálplegra á þennan hátt miðað við það sem þeir voru vanir. Þeir nefndu sérstaklega skipulag og skýra uppsetningu
Endurtekin skrásetning varð einnig til þess að nemendur upplifðu sjónlistir sem mikilvæga grein líkt og aðrar greinar. Einn nemandi komst svo að orði „þetta er náttúrulega bara skóli“ og annar sagði; „við vorum vön því að þetta væru tímar þar sem þú gerðir ekkert en núna erum við að læra“. Því er greinilegt að nemendur sjálfir upplifa mun á því þegar haldið er utan um ferlið með þessum hætti og fær fagið sjónlistir meira vægi með rafrænum ferilbókum.
Einstaklingsmiðun
Í gegnum rafræna ferilbókagerð upplifðu nemendur að þeir hefðu meiri stjórn á verkefninu. Einn nemandi sagði „þarna get ég gert allt sem ég vil“ og upplifði því að þrátt fyrir að ferilbókgerðin sé rammi, þá var greinilega frelsi innan rammans. Það þýðir hinsvegar ekki að verkefnið sé ekki skýrt en einn nemandi tók fram; „það er alltaf verkefni en maður ræður samt svo miklu, það er svo þægilegt að hafa þetta frelsi.“ Því virtist nemendum líka að hafa aukna stjórn á útliti, uppbyggingu og vinnu ferilbóka og verkefna.
Annar nemandi tók svo til orða; „ég fæ meiri stjórn, þetta er mitt verkefni.“ Það virðist vera þannig að ef nemendur upplifa það að þeir séu að einhverju leyti við stjórnvölinn, að þeir fái tækifæri til þess að taka aukna ábyrgð á eigin námi og vilji í raun gera það. Það endurspeglaðist í orðum eins viðmælanda sem sagði skýrt; „ég vil fá að stjórna sem mestu.“
Áhugavert var að einn nemandi tók fram að; „það er allt í lagi að hafa ekki sveigjanleika hjá hinum því svo kemur maður hingað og hér er svo mikill sveigjanleiki.“ Sá nemandi fann því greinilegan mun á þessari aðferð í kennslu og því sem hann átti að venjast.
Í gegnum rafrænu könnunina kom endurtekið fram að nemendum þykir mikilvægt að geta aðlagað ferilbókina að eigin smekk. Þeim fannst mikilvægt að geta valið snið og útlit. Nemendur vildu gera ferilbókina að sinni og töldu það gefa þeim eignarhald sem ylli því að þeir lögðu meiri metnað í hana.
Ígrundun
Ígrundun var stef sem endurtók sig í gegnum samtal hópanna en það virtist vera nemendum alveg ný aðferð í námi, að minnsta kosti meðvituð ígrundun. Líklega höfðu nemendur oft ígrundað án þess að átta sig á því og líklega ekki markvisst. Nemendur nefndu nokkur atriði sem ígrundun hafði áhrif á og efldi.
Þar sem um var að ræða nýja aðferð, þótti nemendum ígrundunin oft strembin, sér í lagi til að byrja með. Þeir voru ekki vissir hvað þeir ættu að skrifa og hverju þeir ættu að segja frá. Með tímanum tömdu þeir sér aðferðina og lærðu að það var ekki hægt að ígrunda vitlaust. Þá gekk þeim mun betur og hjá flestum varð ígrundunin sjálfsagður hlutur. Sumir fóru að hafa gaman að þessum þætti. Einn nemandi nefndi að honum fannst gaman að segja frá; „mér fannst skemmtilegt að segja frá hlutunum, segja frá hvað gerðist og búa til sögu um það hvernig þetta þróaðist hjá mér.“ Með því að stunda ígrundun markvisst urðu nemendur einnig meðvitaðir um ferlið meðan á því stóð.
Ígrundunin virtist einnig hjálpa nemendum að festa í minni. Einn nemandi sagði; „ef við sleppum ígrunduninni þá vitum við ekki neitt og munum ekki aðferðina.“ Þannig virtist ígrundunin vera leið fyrir nemendur til þess að rifja upp og skrásetja það sem þeir höfðu lært sem varð til þess að þeir gátu auðveldlega nálgast nýja þekkingu.
Skrásetning gaf nemendum einnig aukna yfirsýn líkt og áður hefur verið nefnt, sér í lagi við lok ferlisins. Einn nemandi tók fram að honum þótti; „miklu skemmtilegra að sjá hvað maður var að gera og hvernig maður eyddi tímanum.“ Líkt og áður hefur verið nefnt skrásettu nemendur ferlið á margskonar hátt, til að mynda með ljósmyndum, teikningum, skýringarmyndum, hreyfimyndum, hljóðskrám og svo mætti lengi telja. Ígrundunin var hluti af þessari skrásetningunni og gaf nemendum auknar og öðruvísi upplýsingar þar sem nemendur þurftu virkilega að staldra við, horfa yfir og meta það sem þeir höfðu gert. Einn nemandi tók svo til orða; „áður þá fannst manni maður ekkert vera að læra.“ Þrátt fyrir að hafa farið heim með lokaafurð áður þá upplifðu nemendur ekki eins sterkt að þeir hefðu verið að læra á meðan á ferlinu stóð. Því er ígrundum mikilvægur þáttur í farsælli ferilbókagerð sem og öðru námi. Þetta viðhorf endurspeglast í orðum eins nemenda; „maður finnur að maður hefur gert svo mikið, flokkað það og gert allt skýrt.“
Námsstuðningur
Námsstuðningur er síðasta þemað sem kom bersýnilega í ljós í rýnihópunum. Ferilbókagerð, og þá sérstaklega rafræn, er nemendum ókunn. Það getur verið erfitt að venjast einhverju sem er framandi, bæði fyrir kennara og nemendur. Þar sem um var að ræða lærdómssamfélag þurftu allir þátttakendur að venjast breyttu vinnulagi og áherslum. Það var því hægt að reikna með því að nemendur þurftu góða umgjörð fyrst um sinn en með tímanum væri hægt að minnka utanumhald verulega.
Nemendur fundu fyrir þessari aðlögun og einn nemandi sagði; „þetta gekk illa fyrst en síðan betur, fyrst var ég með neikvæðar tilfinningar gagnvart þessu en núna skil ég þetta.“ Þannig má sjá þegar nemandinn vandist, breyttist viðhorf hans gagnvart ferlinu. Annar tók fram að; „það var pínu erfitt að byrja þar sem við erum orðin unglingar en þetta er miklu hjálplegra núna, miklu betra en það var áður.“ Þessi nemandi áttaði sig því á að þessir breyttu starfshættir voru til bóta og hlutirnir gengu betur á þennan hátt. Það virtist ekki taka nemendur mjög langan tíma að venjast en einn sagði; „maður er svona þrjá tíma að læra á þetta og svo er þetta ekkert mál.“
Lykilatriði í innleiðingu ferilbókagerðarinnar er utanumhald og stuðningur við nemenda á meðan á ferlinu stendur. Nemendur þurfa ítarlega kennslu, leiðsögn og markvissa handleiðslu til þess að geta tileinkað sér nýjar aðferðir. Sú ábyrgð liggur á kennaranum. Einn nemandi tók svo til orða: „þú varst alltaf að minna okkur á að setja inn, það var gott.“ Nemendur fundu því fyrir því að þeir höfðu stuðning og fengu áminningu eftir þörfum sem er mikilvægur þáttur ef vel á til að takast.
Einn af kostum ferilbókagerðar eru þeir fjölbreyttu stafrænu miðlar sem nýta má við skrásetningu ferlisins. Í raun eru möguleikarnir endalausir og Padlet býður upp á fjölmargar möguleika í þeim efnum. Því geta nemendur nýtt sér þann miðil sem þeim líkar best við og þannig nýtt styrkleika sína í anda einstaklingsmiðunar. Rannsakandi reyndi að nýta þennan möguleika og bauð nemendum upp á að skila allri skrásetningu á þann hátt sem hver og einn nemandi kaus. Hinsvegar virtust nemendur sækja í það sem þeir þekktu eða voru vanir og völdu í flestum tilvikum að skila skrifuðum texta. Því ákvað rannsakandi að leggja fyrir styttri verkefni þar sem nemendur neyddust til þess að nota ólíka miðla. Það skilaði sér að einhverju leyti í fjölbreyttari skilum nemenda. Það var greinilegt að nemendur áttuðu sig á því hvers vegna þeir þurftu að skila þessum verkefnum en einn nemandi tók svo til orða: „við þurftum að setja inn heimaverkefnin til þess að læra hvað er hægt að gera.“