top of page

Umgjörð um nám

Ferilbókagerðin gaf nemendum öflugt verkfæri til þess að halda utan um og skrásetja eigið nám. Í gegnum vinnuna uppgötvuðu nemendur ítrekað hversu mikið nám hafði átt sér stað, vegna þess að þeir höfðu skrásett það markvisst líkt og Niguidula (2005, bls. 45) bendir á að sé einn af kostum ferilbókagerðar. Nemendur öðluðust heildræna sýn yfir ferilinn líkt og Chi-Cheng og Bing-Hong (2012, bls. 226) fjalla um. Þeir gátu litið yfir það sem þeir höfðu gert og áttað sig á að þeir höfðu gert mun meira en þeir héldu, sér í lagi þegar lokaafurðin var á einhvern hátt ófullnægjandi að þeirra mati. Það er mikilvægt að nemendur upplifi ekki að tíma þeirra sé illa varið þrátt fyrir að þeir séu ekki ánægðir með lokaafurðina, sér í lagi ef um er að ræða nemendur sem af einhverjum ástæðum missa úr tíma og ná þar af leiðandi ekki að klára.


Það var augljóst í svörum og umræðum nemenda að þeir gerðu sér grein fyrir mikilvægi ferilbókarinnar og sáu ávinning af því að vinna að henni. Abrami og Barrett (2005, án bls.) benda einmitt á þennan ávinning. Nemendur nefndu meðal annars að þeir gætu litið til baka séð alla þá vinnu sem lægi að baki námi þeirra í sjónlistum. Eldri nemendur gátu sett sig í spor yngi nemenda og ímyndað sér hversu ítarlegur og yfirgripsmiklar ferilbækur þeirra yrðu við útskrift þar sem þeir hefðu unnið markvisst að ferilbókum allt sitt nám í sjónlistum. 


Einn nemandi nefndi sérstaklega að hann vildi sjá í hvað hann hefði eytt tímanum. Love og Cooper (2004, án bls.) benda á mikilvægi þess að nemendum sé veit hlutdeild í eigin merkingarsköpun. Með því að gefa nemendum tækifæri til þess að átta sig á því námi sem hefur átt sér stað má mögulega auka sjálfstraust nemenda sem getur haft bein áhrif á námsárangur líkt og Niguidula (2005, bls. 47) bendir á. Það er því greinilegt að vinnan skilar árangri og markviss námsstuðningur við ferilbókagerðina er ekki til ónýtis.

Nemendur töldu að þeir hefðu ekki getað sinnt náminu jafn vel ef ekki hefði verið fyrir ferilbókina. Þrátt fyrir að þeim hafi þótt erfitt að byrja, þá fannst þeim fyrirkomulagið mun hjálplegra á þennan hátt miðað við það sem þeir voru vanir. Þeir nefndu sérstaklega skipulag og skýra uppsetningu sem samræmist niðurstöðum Reid (2005, bls. 23) þar sem fram kemur að mörgum nemendum sé mikilvægt að hafa sjónræna yfirsýn. Þeir töldu að betra væri að gera ferilbók en að sleppa því. Áður höfðu þeir stundum tínt verkefnum og þá væri verkefnið glatað og þegar verkefni lauk höfðu þeir farið heim með verkefnin og hent þeim.

Umgjörð um nám: Intro
bottom of page