top of page

Annað tímabil

Annað tímabil varði frá 5. október til 17. nóvember og kenndi rannsakandi einum árgangi unglingastigs, eða níunda bekk en sat hjá í áttunda og tíunda árgangi. Um var að ræða 11 nemendur í níunda árgangi.

Annað tímabil: Intro

Endurskoðun - ​Áætlun

Eftir að fyrsta tímabili lauk komu í ljós allmörg atriði sem mátti laga. Áætlunin var að hafa kynningu á rannsókninni og íhlutuninni markvissari ásamt því að leggja aukna áherslu á umræður við upphaf tímabilsins. Þetta var gert í þeim tilgangi að leggja áherslu á mikilvægi ferilbókarinnar þannig að nemendur séu meðvitaðir um markmið vinnunnar og þær ástæður sem liggja að baki. Stefnt var að því að verja meiri tíma í umræður á meðan á tímabilinu stæði. Einnig var þörf á að fá auknar upplýsingar frá nemendum varðandi þeirra upplifun af lærdómssamfélagi og hvort þeir telji sig raunverulega fá að vera þátttakendur í mótun kennsluháttanna eða ekki. Því var áætlað að bæta við spurningu um upplifun nemenda af lærdómssamfélagi við rafrænu könnunina sem lögð verður fyrir eftir tímabil tvö.


Þá var eitt helsta markmið annars tímabils að stuðla markvisst að ígrundun nemenda með því að láta nemendur staldra við reglulega og íhuga hvað þeir gerðu og hvaða lærdóm þeir geta dregið af því. Áætlunin var að láta nemendur ígrunda í lok kennslustunda eða við lok hvers verkefnis, eða hluta verkefnis, fyrir sig. Það mátti vera á fjölbreyttan hátt, t.d. í formi skrifa eða sem stutt myndskeið, teikning, hreyfimynd eða slæður. Til þess að kynnast þeim fjölbreyttu miðlum sem nemendur geta nýtt sér við að koma þekkingu sinni og lærdómi á framfæri, var áætlunin að leggja fyrir nemendur einföld heimaverkefni þar sem þeir kynna sér möguleika rafrænnar ferilbókagerðar og fjölbreyttar margmiðlunar leiðir.

Á meðan á tímabilinu stóð ætlaði rannsakandi að kynna sér Google Classroom sem mögulegt forrit fyrir ferilbækur. Hann ætlaði enn fremur að bera forritin saman með það í huga að finna sem bestu lausn á helstu vanköntum Padlet, þ.e.a.s. að rannsakandi hafði ekki stjórn á aðgangi nemenda nemenda að þeim og gat ekki sett kennsluefni í ferilbækur nemenda.


Þá var áætlunin að gæta þess að kenna ekki á of mörg forrit þar sem það getur dregið athyglina frá ferilbókagerðinni. Enn fremur var stefnan að útbúa leiðbeiningar um skráningu á hin ýmsu forrit sem væru nemendum aðgengilegar til þess að létta óþarfa álagi af kennara og koma í veg fyrir pirring hjá nemendum. Þar sem verkefni tímabilsins var leirvinnsla var óvíst að um nokkur önnur forrit en Padlet yrði að ræða. 


Til þess að gæta þess að nemendur skrásetji ferlið stefndi rannsakandi að því að minna nemendur reglulega á mikilvægi þess að vinna jafnt og þétt að ferilbókinni. Gera má ráð fyrir því að almennt vinnuframlag nemenda endurspeglist að einhverju leyti í umfangi ferilbókarinnar. Það var því mikilvægt að nemendur séu meðvitaðir um mikilvægi hennar sem og hlutverk ferilbókarinnar í lokamati.

Annað tímabil: About My Project

​Íhlutun - Ígrundun

Við upphaf annars tímabils kom í ljós ný hindrun þegar þrír nemendur komu aftur til rannsakanda úr níunda árgangi og höfðu þar af leiðandi heyrt innlögnina og kennsluna á Padlet. Því dreif rannsakandi sig í að ljúka henni af í stað þess að gefa sér nægan tíma í innlögn og umræður. Nemendur voru hvorki með spurningar né sýndu áhuga á því að ræða um ferlið frekar. Því telur rannsakandi að honum hafi ekki tekist að leggja aukna áherslu á mikilvægi þess að skrá reglulega í ferilbókina í upphafi. Einnig hafði rannsakandi ekki íhugað hvort nemendur ættu að gera nýja og nýja ferilbók eða halda einni út skólaárið. Einn nemandi valdi til dæmis að halda áfram með fyrri ferilbók sína en hinir tveir völdu að búa til nýja bók.


Áætlunin var að gæta þess að kynna nemendum ekki of mörg ný forrit til þess að draga ekki athygli frá ferilbókagerðinni sjálfri. Auk þess að læra á Padlet lærðu nemendur á eitt annað forrit en þar sem það var óundirbúin kennsla sem rannsakanda datt í hug í miðri kennslustund, útbjó hann ekki sérstakar leiðbeiningar varðandi það forrit enda var ekki að ræða um forrit sem krefst innskráningar. Ferilbókagerðin gekk því mjög vel að mati nemenda sem endurspeglaðist í rafrænu könnuninni þar sem nemendur tóku fram að þeir væru ánægðir með ferilbókagerðina en einungis einn nemandi tók fram að fyrst hafi honum þótt ferilbókagerðin flókin en þegar leið á tímabilið hafi honum gengið mun betur.


Aðspurðir voru nemendur heilt yfir ánægðir með Padlet forritið og tóku nokkrir nemendur það sérstaklega fram í opinni spurningu. Einungis einn nemandi nefndi vandræði varðandi innskráningu, ólíkt fyrsta tímabili þar sem ansi margir nefndu þennan ókost. Einn nemandi tók sérstaklega fram að honum þætti þetta gott forrit til þess að halda öllu saman. Engin nemandi kom með hugmynd að forriti sem hægt væri að nota í staðin fyrir Padlet. Þegar kom að eiginleikum sem nemendur vildu að ferilbókaforrit byggi yfir kom eingöngu ein ný uppástunga. Einn nemandi vildi geta breytt útliti og unnið það áfram þegar líður á ferlið.


Nokkrir nemendur voru ósáttir við að hafa gleymt því að setja inn færslur í ferilbókina og skrásetja ferlið sem ber þess vitni að þeir hafi ekki fengið nægilegt aðhald við ferilbókagerðina. Eðlilegt er að nemendur hafi verið mis duglegir við að vinna að ferilbókinni og þá gæti hafa skapast ójafnvægi á milli vinnu nemenda að viðfangsefnum kennslustundanna og ferilbókarinnar. Því má velta því fyrir sér hvort um sanngjarnt mat sé að ræða ef ferilbókin er nýtt sem grundvöllur að mati. Lýta má svo á að ferilbókin sé eitt helsta viðfangsefni tímanna og því sé það hluti af þeim kröfum sem kennari leggur á nemendur, að vinna jafnt og þétt að bókinni.


Rannsakandi ákvað að biðja nemendur um að ígrunda við lok hvers tíma, utan við þann fyrsta þar sem hluti hans fór í kynningu á rannsókninni og viðfangsefni tímabilsins. Þá kom fljótt í ljós að nemendur voru almennt ekki vissir um hvað ígrundun fæli í sér. Því útskýrði rannsakandi fyrir nemendum að þeir ættu að skrifa um hvernig tíminn hefði gengið, hvað þeir hefðu gert, hvað hefði tekist vel og hvað ekki, hvað þeir myndu gera öðruvísi næst og þar fram eftir götunum. Þetta bað rannsakandi nemendur líka að gera þegar þeir höfðu lokið einstaka verkefnum. Þegar ferilbækurnar voru skoðaðar kom í ljós að ígrundun hafði aukist frá fyrsta tímabili en var ennþá frekar stutt. Oftast var um lokaígrundun að ræða. Því var greinilegt að efla yrði þennan þátt verulega.


Rannsakandi setti nemendum fyrir eitt heimaverkefni en kom ekki auga á fleiri góð tækifæri til þess að setja nemendum fyrir. Nemendur voru að vinna að leirmótun og gátu eðli málsins samkvæmt, ekki tekið verkefnin með sér heim. Eftir á að hyggja hefði rannsakandi vel getað sett þeim fyrir verkefni, með dálitlum undirbúningi en í hita leiksins varð ekki af því. Ferilbækurnar báru þess vitni og sýndu augljósan skort á fjölbreyttum rafrænum miðlum, eingöngu var um að ræða ljósmyndir og texta.


Á meðan á tímabilinu stóð kynnti rannsakandi sér aðra möguleika varðandi ferilbókagerðina til þess að reyna að finna lausn á helstu vanköntum Padlet. Þegar Google Classroom var skoðað kom í ljós að það forrit hentaði ekki vel þegar kemur að sjónrænni yfirsýn og kom því ekki til greina sem forrit fyrir rafræna ferilbókagerð.


Þegar á þessari vinnu stóð byrjaði Padlet að bjóða upp á keypta útgáfu sem er sérsniðin fyrir skóla. Sú útgáfa býður upp á að settur sé upp reikningur þar sem kennari, einn eða fleiri fá stjórnendaaðgang og stofna aðgang fyrir nemendur. Þannig má hafa yfirsýn yfir notendanöfn og aðgangsorð og halda öllum ferilbókum nemenda undir sama hatti. Einnig geta stjórnendur sett upp ferilbækur þar sem allir notendur undir skólaaðganginum geta sjálfkrafa séð. Þannig má búa til samansafn af kennsluefni sem nemendur gátu auðveldlega afritað yfir á sínar ferilbækur. Þar með var komin einföld lausn á helstu hindrunum almenna aðgangsins að Padlet. Því ákvað rannsakandi að nýta þessa útgáfu.


Þá kynnti rannsakandi sér möguleikana á lyklaborðum sem nemendur gætu tengt við spjaldtölvurnar til þess að eiga auðveldara með að skrifa lengri texta. Hann skoðaði úrvalið hérlendis með tilliti til verðs og eiginleika en þægilegast var að ef hægt væri að stafla lyklaborðunum og þau gætu þolað mikið hnjask. Það þurfti einnig að huga að því hvort þau bjóði upp á bluetooth tengingu þar sem það er það eina sem virkar með spjaldtölvunum því þær eru ekki með USB tengi. Þá kynnti rannsakandi sér úrvalið af borðfestingum fyrir spjaldtölvur til þess að nemendur gætu tekið upp myndskeið af vinnunni og sett inn á ferilbækurnar. Niðurstaðan var sú að hvergi á landinu voru lyklaborð né borðfestingar til sölu sem hentuðu þörfum kennslunnar. Því var ákveðið að geyma þetta að sinni en halda áfram að fylgjast með og sjá hvort eitthvað kæmi í sölu sem skólinn gæti fjárfest í.


Það misfórst að meta framkomu og hegðun nemenda reglulega á tímabilinu eins og rannsakandi hafði áætlað sem var ein af athugasemd nemenda frá fyrra tímabili. Því var hún eingöngu metin við lok tímabilsins um leið og hann mat ferilbækurnar. Hinsvegar var tímabilið eingöngu sjö skipti og því ekki um mikinn tíma að ræða. Þegar rannsakandi fór yfir ferilbækurnar og mat nemendur, rifjaðist margt upp fyrir honum varðandi kennslustundirnar þegar hann sá ljósmyndir og skrif nemenda. Rannsakandi telur í raun ekki þörf á að meta framkomu eða lykilhæfni nema kannski einu sinni snemma á tímabilinu og síðan aftur í lokinn. Mat var heilt yfir mjög þægilegt með ferilbókina í höndunum. Þar sést hvort nemendur sinna verkefnum og heimanámi, hvenær þeir setja hlutina inn og hvort þeir séu að leggja vinnu í hlutina eða ekki.

Annað tímabil: About My Project
bottom of page