Um höfundinn
Sandra Rebekka starfar sem grunnskólakennari við Giljaskóla þar sem hún kennir sjónlistir. Hún hefur lokið kennaranámi og listnámi og er rannsóknin sem hér er kynnt, lokaskref í MA námi hennar. Sandra Rebekka hefur stundað nám í myndlist, tónlist og öðrum skapandi greinum. Áherslusvið hennar er hlutverk sköpunarferlisins í námi og notkun tækni til þess að stuðla að auknum gæðum náms. Hér má sjá ýmiss önnur verkefni sem Sandra Rebekka hefur unnið að undanfarin ár.
Heimasíða sjónlista við Giljaskóla
Sandra hóf kennslu við Giljaskóla haustið 2015 og var ráðin í afleysingar í sjónlistakennslu. Fyrstu tvö árin starfaði hún sem afleysing á sex mánaða samningi í senn. Þá tók hún sín fyrstu skref sem grunnskólakennari og fetaði sig hægt áfram þar sem um tímabundna stöðu var að ræða. Frá og með haustinu 2017 hefur Sandra verið fastráðin sem sjónlistakennari skólans. Þá fyrst fór hún að gera stærri breytingar á aðstöðu, verkfærum, efnivið og kennslu. Síðan þá hefur hún haldið áfram þróað eigin nálgun á kennslu, mótaða eftir starfskenningu sinni og lagt áherslu á stöðuga starfsþróun.
Erasmus+
Vorið 2018 hlaut Sandra Rebekka ásamt samstarfsfélögum styrk frá Erasmus+ fyrir hönd Giljaskóla til þess að sækja námskeið í þvermenningarlegri verkefnastjórnun. Námskeiðið var fyrsta skref teymisins í verkefni sem snýr að sköðun, tækni og samfélagslegum samræðum á milli ólíkra menninga. Á námskeiðinu fékk teymið mikla fræðslu í verkefnastjórnun, þvermenningarlegri samvinnu og kynntist umsóknarferli og umsýslu Erasmus+ verkefna í þaula. Teymið kynnti skólann og íslenska menningu ásamt því að kynnast skólakerfi annarra Evrópu landa. Þá mynduðust tengsl við einstaklinga þvert á evrópu með það að markmiði að efla samvinnu í frekari samstarfsverkefnum. Á heimasíðu verkefnisins má lesa um allt sem því tengist, kynnast teyminu, skoða instagram og twitter reikninga verkefnisins og fylgjast með áframhaldandi tækifærum.
Listsköpun
Sandra Rebekka hefur skapað frá unga aldri, hvort sem um var að ræða söng, lagasmíð, teikningar eða flíkur. Það eru líklega ekki margar leiðir til sköpunnar sem hún hefur ekki prufað á einhvern hátt. Með aldrinum fór hún þó að leggja aukna áherslu á sjónlistir og tónlist og hefur stundað nám í hvoru tveggja. Sandra Rebekka sótti listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri og síðar stundaði hún nám í fagurlist við Myndlistarskólann á Akureyri. Hún hefur verið í söngnámi við Tónlistarskólann á Akureyri af og til frá því að hún var sextán ára, bæði í klassískum söng og djass og dægurlaga söng.