top of page

Starfendarannsóknir

Rannsóknaraðferðin er starfendarannsókn en meginmarkmið þeirra er að tengja saman starf og rannsóknir þannig að rannsóknarferlið sé í höndum þátttakendanna sjálfra (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 347). Aðferðin var valin vegna þess að rannsakandi vildi tengja saman nám og starf en starfendarannsóknir gefa starfandi kennurum tækifæri til þess að rannsaka og meta eigið starf og finna leiðir til þess að sinna starfi sínu betur (McNiff og Whitehead, 2011, bls. 7).


Starfendarannsóknir leggja áherslu á að prófa tiltekna aðferð eða íhlutun við raunverulegar aðstæður og eru það kennararnir sjálfir sem fá að taka þátt í að móta aðferðirnar og prufa þær (Jóhanna Einarsdóttir, 2009, bls. 3). Helsti kostur starfendarannsókna er sá að rannsakandinn breytir eigin starfsháttum í samræmi við niðurstöður sínar í stað þess að skýra eingöngu frá niðurstöðunum (Mills,2007, bls. 3),þannig er hann hluti af ferlinu og hlýtur hvað mestan ávinning af rannsókninni (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 350).


Í starfendarannsóknum er ákveðnu hringferli fylgt eftir sem felur í sér nokkra meginþætti. Ýmsir fræðimenn hafa sett fram líkön af ferli starfendarannsókna sem, þrátt fyrir að vera fjölbreytt, innhalda ákveðna meginþætti (Mills, 2007, bls. 18–18). Þessa þætti mætti nefna; greiningu á viðfangsefni, áætlun um aðgerðir, framkvæmd, mat á árangri, ígrundun og ákvarðanir um áframhald. Þessi atriði geta síðan spilað saman á ólíkan hátt (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 352).


Ígrundun er lykilþáttur í starfendarannsóknum og eitt meginhugtaka þeirra þar sem gert er ráð fyrir að því að þekking verði til við reynslu og þann lærdóm sem dreginn er af henni (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 351; McNiff, 2013, án bls.). Ígrundunin er grundvöllur þess að rannsakandi öðlist dýpri skilning á daglegu starfi og stuðlar að starfsþróun. Algengt er að rannsakandinn stundi markvissa ígrundun í eigin dagbókarskrifum á meðan á rannsókn stendur (Jóhanna Einarsdóttir, 2009, bls. 8, 5). Ígrundun var grundvöllur allra áætlana sem rannsóknin gerði ráð fyrir, og þeirra breytinga sem rannsakandi vildi innleiða. Með ígrunduninni varð til ný þekking og með því breytingar á starfi.


Starfendarannsóknir má flokka eftir því hversu víðtæk áhrif þeirra eru, þ.e. hvort um er að ræða kennslu, einstakling eða starfshætti skóla. Í þessu tilviki er um að ræða sjálfsrannsókn (e. self study) sem felur í sér að rannsakandinn rannsakar sjálfan sig og sína starfshætti (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 348; Vanassche og Kelchtermans, 2015, án bls.). Sjálfsrannsóknir höfðu aukist á síðasta aldarfjórðungi 20. aldarinnar, samhliða því að breytingar áttu sér stað á því hvað getur talist til þekkingar. Skoðanir á því hvað telst þekkingaröflun og hvað eru gjaldgengar rannsóknir, hafa breyst, á sama tíma og fræðiheimurinn hefur breikkað og fjöldi fræðigreina aukist (Bullough og Pinnegar, 2001, bls. 13). 


Starfendarannsóknir eru öflug leið til þess að styrkja lærdómssamfélagið og eru mikilvægur þáttur í að efla starfsþróun kennara (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2013, bls. 36, 48). Í þessari rannsókn er sjónum beint að kennslu rannsakanda með það að markmiði að bæta eigin starfshætti og auka skilning á námi nemenda í sjónlistum. Helsta ástæða þess að starfendarannsókn varð fyrir valinu er sú að rannsakandi vill tengja námið við starf sitt eftir fremsta megni. Þannig nýtist vinna hans og nám beint í starfi og kennslu og kemur honum, nemendum og samstarfsfólki til góða.Einnig geta starfendarannsóknir gefið röddum þátttakenda jafnt vægi og þá oft röddum sem ekki fá tækifæri til þess að heyrast (McNiff, 2014, bls. 23). Því hentar starfendarannsókn einstaklega vel hugmyndafræði lærdómssamfélagsins.


Ferli starfendarannsókna og lærdómssamfélags svipar til þar sem um er að ræða hringferli og stöðuga endurskoðun þess í báðum tilfellum þar sem lærdómssamfélagi er líkt við tvær lykkjur þar sem stöðugt endurmat og íhlutanir eiga sér stað (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2013, bls. 36, 38; McNiff, 2014, bls. 23). Rannsakandi gerði áætlun um starfið, safnaði gögnum, fór yfir þau og mat árangur. Lærdómssamfélag gefur kennaranum tækifæri til að ígrunda eigið starf og leiða þannig til umbóta (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2013, bls. 40) sem svipar mjög til hugmyndana á bak við starfendarannsóknir. Rannsakandi ígrundaði jafnt og þétt það sem þegar hafði gerst og gerði áætlun um næstu skref. Aðferðin gaf rannsakanda færi á að halda skipulega utan um ferlið og gaf færi á stöðugri endurskoðun.

Starfendarannsóknir: Intro
bottom of page