top of page

Þriðja tímabil

Þriðja tímabil varði frá 23. nóvember til 12. janúar. Á þriðja tímabili tóku þátt tveir árgangar unglingastigs, eða áttundi og tíundu bekkur en níundi bekkur var ekki með í þetta skiptið. Um var að ræða 13 nemendur í áttunda bekk og 12 nemendur í tíunda bekk.

Þriðja tímabil: Intro

Endurskoðun - ​Áætlun

Eftir að öðru tímabili lauk komu í ljós nokkur atriði sem þurfti að endurskoða fyrir þriðja tímabil. Forgangsatriði var að stofna skólaáskrift að Padlet og flytja þá nemendur sem nú þegar áttu almennan Padlet aðgang, inn á skólaðaganginn til þess að þeir haldi þeim ferilbókum sem þeir höfðu nú þegar gert. Þannig mætti gera tilraun til þess að koma í veg fyrir innskráningar erfiðleika og gefa rannsakanda betri yfirsýn og stjórn.


Þá var áætlað að geyma kynninguna á ferlinu og leiðbeiningar varðandi ferilbókagerð þar til nemendur væru komnir af stað með verkefnin sín. Þannig mætti reyna að koma í veg fyrir að þeir nemendur sem voru að koma aftur yrðu eirðarlausir og pirraðir. Þeir nemendur sem höfðu gert ferilbók áður gætu að öllum líkindum sýnt meira sjálfstæði og þyrftu ekki á þessari leiðsögn að halda að mati rannsakanda. Þeir gætu gert ferilbókin á sínum eigin hraða eða haldið áfram með sömu ferilbók og síðast.

Þar sem illa virtist ganga að koma af stað umræðum þrátt fyrir að nemendur fengu tækifæri til þess að spyrja spurninga var sá þáttur ofarlega í huga rannsakanda. Hinsvegar sá hann enga góða lausn eða datt í hug inngrip sem gæti stuðlað að auknum umræðum. Því var það áætlun hans að fylgjast sérstaklega með þessum þætti til þess að sjá hvort hann myndi taka eftir einhverju eða koma í huga góð lausn.


Það var mikilvægt að Padlet forritið yrði nemendum ekki hindrun í ferilbókagerðinni. Langflestir nemendur nefndu mikilvægi þess að forritið væri einfalt í notkun. Til þess að stuðla að betri skilningi og gegnsæi varðandi Padlet var ákveðið að útbúa sýnidæmi af hverju sniðmáti fyrir sig sem Padlet býður upp á. Það ætti að auðvelda rannsakanda að kynna forritið og nemendum að taka upplýsta ákvörðun varðandi útlit og snið ferilbókarinnar.


Enn var skortur á fjölbreyttari rafrænum miðlum við gerð ferilbókarinnar og skrásetningu ferlisins. Því var það áætlun rannsakanda að halda áfram að leggja fyrir nemendur styttri heimaverkefni. Þrátt fyrir að hafa eingöngu lagt fyrir eitt heimaverkefni á öðru tímabili, þá telur rannsakandi það hafa aukið færni nemenda í því að skoða hugmyndir á netinu, afrita þær í ferilbókina og vinna eigin verkefni út frá þeim. Því var það áætlun rannsakanda að halda áfram að leggja fyrir nemendur styttri heimaverkefni þar sem þeir nota mismunandi miðla í hvert sinn.


Áfram var þörf á að þjálfa nemendur í því að ígrunda. Ekki hafði gengið nógu vel að fá nemendur til þess að sinna ígrundun þó að um ákveðna framför væri að ræða. Ákveðið var að gera ígrundun skilyrði þess að fá tímabilið metið til einkunna og setja nemendum að skila þéttri ígrundun í síðustu kennslustund tímabilsins.

Þriðja tímabil: About My Project

​Íhlutun - Ígrundun

Rannsakandi setti upp skólaaðgang að Padlet áður en tímabilið hófst og stofnaði aðgang fyrir þá nemendur sem nú þegar höfðu komið til hans. Aðgangurinn, það er að segja, notendanafn og lykilorð, voru þau sömu og nemendur nota almennt á vegum skólans. Þær ferilbækur sem nemendur höfðu gert áður voru færðar yfir á nýjan aðgang nemenda. Nemendum gekk mun betur að skrá sig inn á Padlet þó svo að þeir gleymdu oft aðganginum á milli kennslustunda. Einhverskonar leiðbeiningar varðandi innskráningu gætu eflt sjálfstæði nemenda í innskráningu. 


Nemendur voru ánægðir með Padlet forritið og tóku fram að þeim þætti forritið einfalt og þægilegt sem er áhugavert í ljósi þess hver margir tóku fram að forritið væri flókið á fyrsta tímabili. Því er ljóst að nemendur eru fljótir að venjast og læra á forritið og aukin þekking rannsakanda skilar árangri. Aðspurðir tóku nemendur fram að auk fyrrgreindra atriða þætti þeim mikilvægt að ferilbókaforrit gæfi yfirsýn sem myndi auðvelda þeim að muna eftir því sem þeir höfðu gert og lært.

Þá voru útbúin sýnidæmi af öllum Padlet sniðmátunum til þess að nemendur gætu valið það sem þeim líkaði best. Aðspurðir sögðu nemendur að þeim líkaði vel að geta valið sitt eigið sniðmát og þar með gert ferilbókina persónulegri. Hinsvegar væri gott ef nemendur hefðu aðgang að sýnidæmunum á meðan þeir eru að vinna ferilbókina í stað þess að þeim séu einungis sýnt þau í upphafi. 

Umræður við upphaf tímabila hafa verið takmarkaður fram að þessu. Hinsvegar tók rannsakandi eftir því að á meðan á vinnu stendur, mynduðust góðar umræður. Þetta gerðist þegar nemendur voru komnir af stað með ferlið og búnir að koma sér vel fyrir í vinnunni og rýminu. Þá byrjuðu oft umræður á milli nemenda og rannsakanda og flæddu ágætlega. Þessar stundir mátti grípa á lofti og nýta til þess að heyra hverjar hugrenningar nemenda voru.

Í öðrum árganginum voru ekki lögð fyrir nein heimaverkefni þar sem verkefni tímabilsins voru í eðli sínu fjölbreytt. Nemendur þurftu að skila þrennskonar verkefnum með þremur ólíkum miðlum til þess að klára verkefnið. Þar af leiðir var um næga fjölbreytni að ræða. Í hinum árganginum voru engin heimaverkefni lögð fyrir.

Til þess að stuðla að aukinni ígrundun var hún gerð að skilyrði fyrir því að ljúka verkefnum áfangans. Þar af leiðir var ígrundun mun greinilegri en áður þegar ferilbækur nemenda voru skoðaðar. Nemendur þurftu hinsvegar mikla aðstoð og áttuðu sig oft ekki á því hvað hugtakið fæli í sér. Einnig virtist ígrundun við lok tímabilsins ekki næg þar sem nemendur voru fljótir að gleyma þar sem kennslan var eingöngu einu sinni í viku.

Upp til hópa þótti nemendum mikilvægt að fá að hafa áhrif á ferilbókagerðina. Þeir tóku fram ýmsar ástæður vegna þessa, til að mynda að það auki ánægju viðkomandi og að hægt væri að aðlaga hana ekki eingöngu að útliti heldur einnig hægt að aðlaga uppsetningu eftir hentugleika. Áhugavert var að einn nemandi tók sérstaklega fram í opinni spurningu að mikilvægt væri að geta nýtt ferilbókina til grundvallar að einkunnagjöf.

Þriðja tímabil: About My Project
bottom of page