top of page

FERILBÆKUR

Aðalnámskrá leggur áherslu á að nemendur geti unnið eftir ferli sem hefst á kveikju og endar á lokaafurð. Ferilbókin er tilraun til þess að mæta því markmiði þar sem nemendur geta haldið utan um vinnu sína og séð hvernig hugmyndir þeirra þróast. Ferilbækur nemenda í sjónlistum var þróunarverkefni viðfangsenfi starfendarannsóknar sem Sandra Rebekka sjónlistakennari gerði sem hluti af M.A gráðu hennar í sérkennslu. Heimasíð rannsóknarinnar má nálgast hér.

 

Í bókina safna nemendur ýmsum gögnum og verkefnum. Tilgangur bókarinnar er margþættur. Í hana safna nemendur kennsluleiðbeiningum, verkefnum, skyssum og prufum og skrásetja þannig þekkingu sína og leikni. Þá geta þeir flett upp upplýsingum eftir á til upprifjunar. Einnig  geymir bókin hugmyndir og þróun þeirra. Ef vel tekst til geta nemendur því litið yfir farin veg og séð hvernig hugmyndir þeirra verða til, breytast og vonandi sjá þeir einhverjar þeirra verða að raunveruleika. Við lok hvers tíma ígrunda nemendur ferlið sem hefur átt sér stað og velta því fyrir sér hvernig þeim gekk, hvað gekk vel og hvað ekki og hvers vegna það fór eins og það fór. Þeir velta því fyrir sér hverju þeir myndu breyta ef þeir væru að gera sama hlutinn aftur og hvað þeir hafa lært af ferlinu. Þannig eykst námsvitund nemenda og þeir auka smátt og smátt þekkingu á eigin námsstíl.

Auk þess að leggja áherslu á sköpunarferlið, er ákvæði í Aðalnámskrá sem varðar sjálfbærni og er hún skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunar. Þetta eru tvær mikilvægar áherslur í listnámi nemenda og til þess að reyna að mæta þeim báðum á skapandi hátt, fór af stað tilraunverkefni í sjónlistum, þar sem nemendur halda utan um vinnu sína á rafrænan hátt. Á þann hátt sparast ýmiss efniskostnaður sem og efnissóun. Nemendur hafa aukin tækifæri til að vinna hugmyndavinnu utan skólastofunnar þar sem þeir geta nálgast vinnu sína í gegnum hvaða snjalltæki sem er. Þannig geta þeir safnað saman innblástri úr ýmsum áttum, bæði myndir og myndbönd, tónlist, skjöl, teikningar og ljósmyndir. Þetta eykur sjálfstæði nemenda og oft á tíðum áhuga. Í þessari vinnu nota nemendur snjalltæki, hvort heldur sem er þeirra eigin eða skólans og ýmiss forrit sem auðvelda þeim að skanna inn skjöl, skrifa inn á þau og safna saman vinnu sinni á rafrænum grundvelli.

Ferilbókin er liður í því að auka sjálfstæði og einstaklingsmiðun nemenda og eflir hún námsvitund sem er grunnur að farsælu námi.

bottom of page