STAFRÆNT N ÁMS- OG KENNSLUSKIPULAG
eftir Söndru Rebekku
ALMENNT
Stafræn tækni, aukin tækjabúnaður og þróunarvinna hefur skilað mér leið að skipulagi sem auðveldar mér ekki eingöngu kennslu og námsmat heldur gefur nemendum vettvang til þess að halda utan um eigið nám og vinna markvisst að hæfniviðmiðum. Ég hef nýtt mér Google Calendar, Google Sheets og Google Forms en til að nota þau forrit þarf eingöngu Google aðgang sem er ókeypis. Auk þess nota ég Padlet og greiðir Giljaskóli fyrir skólaaðgang að forritinu. Vert er að greina frá því að allt það sem ég fjalla um hér er þróunarvinna sem er í stöðugri mótun og endurskoðun.




VIKUSKIPULAG Í GOOGLE CALENDAR
Það er mjög auðvelt að setja upp stundaskrá í gengum Google Calendar. Eingöngu þarf að setja upp hverja kennslustund að hausti og láta þær endurtaka sig út skólaárið. Síðan er farið yfir hverja viku með skóladagatalið til hliðsjónar og starfsdögum og öðru uppbroti bætt inn. Einn helsti kostur Google Calendar er að hægt að vera með fjölda dagatala og gefa ólíkum aðilum aðgang. Sem dæmi hafa allir kennarar Giljaskóla aðgang að minni stundatöflu. List- og verkgreinakennarar hafa aðgang að fundaskipulaginu okkar, faðir barnanna minna hefur svo aðgang að dagatölunum barnanna og við öll höfum aðgang að fjölskyldudagatalinu. Þannig má aðlaga Google Calendar að þörfum hvers og eins. Inn í forritinu er síðan hægt að opna Tasks sem er frábær viðbót þar sem hægt er að halda utan um verkefni sem þarf að sinna. Þau má flokka ef vill, setja undirþætti og skiladaga.
HÉR ER HÆGT AÐ SETJA INN KENNSLUSTUNDUR, FUNDI OG AÐRA VIÐBURÐI
HÉR ER HÆGT AÐ BÆTA VIÐ DAGATÖLUM

HÉR ER HÆGT AÐ SETJA INN VERKEFNALISTA

NÁMSKRÁ Í GOOGLE SHEETS
Google Sheets er frábær vettvangur til þess að halda utan um námskrá hvers árgangs eða fags og almennt kennsluskipulag út frá því. Í Google Sheets má auðveldlega hafa kennsluskipulag fremst og námskrá hvers árgangs eða fags þar á eftir. Sjálf nota ég einn flipa undir námskrá list- og verkgreina beint úr Aðalnámskrá grunnskóla. Kennsluskipulagið má setja upp á þann hátt að hver vika er í sömu línunni og hver tími í sama dálknum. Ég fæ til að mynda suma hópa tvisvar sinnum í viku, aðra einu sinni. Þeim er raða frá 4. upp í 10. bekk en það eru þeir árgangar sem ég kenni. Þessi flipi var unnin upp úr skjali frá heimilisfræðikennara Giljaskóla. Hér er búið að merkja inn gula og rauða daga, skipulagsdaga og annað. Þarna er mjög einfalt að setja upp áætlun fyrir hverja kennslustund og auðvelt að færa á milli tíma þegar óvænt uppbrot verður. Ef um forföll er að ræða, er kennsluáætlun dagsins aðgengileg öllum innan skólans en á sama tíma er einfalt fyrir mig að breyta áætluninni ef ég vil frekar kenna viðkomandi efni sjálf eða ef ég veit að það er ekki hægt að koma óundirbúin inn í kennsluna.
HVER VIKA ER SKÝR SEM EIN LÍNA

UPPBROT Á KENNSLU ER SKÝRT
KENNSLUSKIPULAGIÐ
ER FREMST
NÁMSKRÁ HVERS ÁRGANGS/FAGS KEMUR Í KJÖLFARIÐ
Í námskrá hvers árgangs/fags má setja upp einfalt yfirlit yfir verkefni skólaársins. Þar sem ég kenni sjónlistir út frá listasögunni hef ég valið að setja mína kennsluáætlun upp á eftirfarandi hátt. Þá er hvert verkefni afmarkað í einum dálki en undirþættir skilgreindir í hverri línu fyrir sig. Á þennan hátt er auðvelt að setja inn allskonar margmiðlun, hlekki og slíkt. Einnig hef ég stundum nokkur verkefni út frá sömu listastefnunni, þó svo ég velji að leggja einungis eitt þeirra fyrir hverju sinni.
HVER VERKÞÁTTUR FÆR SÉR LÍNU
EINFALT AÐ SETJA INN HLEKKI AÐ ÍTAREFNI

HVERT VERKEFNI FÆR SÉR DÁLK
MÆTINGARSKRÁNING Í GOOGLE SHEETS
Það er auðvelt að halda utan nauðsynlegar upplýsingar varðandi árganga og hópa með Google Sheets. Ég vel að setja upp hvern árgang sem sér flipa. Þar tek ég saman upplýsingar um hópaskiptingar og mætingarskráningu sem ég flokka eftir litum; gulur, rauður, grænn og blár. Skjalið telur síðan saman hversu oft nemandi er fjarverandi, af útskýrðum eða óútskýrðum ástæðum og hversu oft hann mætir seint. Þetta eru upplýsingar sem gott er að hafa við höndina þegar kemur að námsmati, þ.e. ef einhverja vinnu vantar í ferilmöppu nemandans sem á sér eðlilegar skýringar. Hjá hverjum nemanda held ég einnig til haga nauðsynlegum upplýsingum sem gott er að hafa í huga um viðkomandi þar sem ég kenni stórum hluta nemenda skólans og auðvelt er að missa yfirsýn. Þá hef ég einnig skráð notendanafn og lykilorð nemenda sem kemur sér oft mjög vel, sér í lagi með yngri nemendur sem eru enn að læra inn á stafrænt nám. Að lokum er QR kóði sem leiðir að stafrænni ferilmöppu hvers nemanda. Þennan dálk er auðvelt að afrita og líma inn í námsmatskjal Ingva Hrannars og Hans Rúnars sem Giljaskóli notar, sjá hér.
LITAKÓÐAÐUR NEMENDALISTI EFTIR HÓPASKIPTINGUM

NOTENDANÖFN OG LYKILORÐ
MÆTINGARSKRÁNING Í SÖMU LITAKÓÐUN

QR KÓÐI Á STAFRÆNAR FERILMÖPPUR NEMENDA

STAFRÆNAR FERILMÖPPUR Á PADLET
Stafrænar ferilmöppur geta haft mikinn ávinning, bæði fyrir nemendur og kennara. Þær eru ein leið til þess að auka einstaklingsmiðun með því að efla sjálfstæði nemenda, óháð getu. Þær geta veitt utanumhald og stuðlað að ígrundun ef markvissum námsstuðningi er beitt. Ég hef þróað notkun stafrænna ferilmappa í kennslu frá því að ég hóf störf við Giljaskóla og hluti af þeirri þróunarvinnu var í formi starfendarannsóknar en nánar má fræðast um hana hér. Sem stendur tel ég Padlet henta vel til þess að búa til stafræna ferilmöppur. Seesaw er mjög vinsælt um þessar mundir og hægt er að gera mjög sniðuga hluti á þeim vettvangi, sér í lagi þegar hæfniviðmið eru tengd við verkefni. Hinsvegar hentar Seesaw að mínu mati ekki nægilega vel í sjónlistakennslu þar sem það veitir ekki sjónræna yfirsýn sem ég tel mjög mikilvægt fyrir nám í sjónlistum. Þar af leiðir vel ég að nota Padlet. Það eru þó til ýmis forrit sem mætti vel nýta til sama tilgangs, allt eftir því hvað hentar best. Ég bý til sniðmát af ferilmöppu fyrir hvert ár út frá námskránni hér að ofan.
AUÐVELT AÐ FLOKKA FERILMÖPPUR NEMENDA

HÆGT AÐ BÚA TIL SNIÐMÁT SEM NEMENDUR AFRITA
Padlet býður upp á mismunandi snið á ferilmöppu eftir því hvernig færslurnar raðast inn. Ég hef valið að útbúa sniðmát sem nemendur afrita í upphafi. Hver nemandi getur síðan aðlagað sína ferilmöppu að vild, sem dæmi valið veggfóður, leturgerðir og liti. Inn í ferilmöppuna er hægt að setja inn ýmis konar kennsluefni og leiðbeiningar. Sniðmátið hef ég valið að skipuleggja eftir verkefnunum sem ég hef skilgreint í námskránni sem ég hef þróað. Undir hvert verkefni hef ég sett kennsluefni og leiðbeiningar.
Það frábæra við Padlet og önnur svipuð forrit, er að hægt er að setja inn margskonar efni, texta, ljósmyndir, hljóðupptökur, myndbandsupptökur, hlekki, greyptar færslur (e. embed), teikningar, skjöl og í raun hvað sem hentar náminu hverju sinni. Þannig má stuðla að fjölbreyttu og einstaklingsmiðuðu námi.

HÆGT AÐ SETJA INN KENNSLUEFNI
HÆGT AÐ SETJA INN LEIÐBEININGAR
HVERT VERKEFNI FÆR SÉR DÁLK
Ég hef valið að hafa sér dálk fyrir námsmat. Það samanstendur af væntingum nemenda við upphaf náms og markmiðasetningu, lokaígrundun og námsmatsskjali sem er greipt í ferilmöppuna. Þannig hafa nemendur hæfniviðmiðin sem þeir eru að vinna að fyrir augunum frá upphafi.

MJÖG AUÐVELT FYRIR NEMENDUR AÐ BÆTA VIÐ EFNI MEÐ ÞVÍ AÐ ÝTA Á PLÚSINN

NÁMSMAT Í GOOGLE SHEETS
Google Sheets er ágæt leið til þess að halda utan um námsmat nemenda. Aðalnámskrá Grunnskóla setur mjög metnaðarfull hæfniviðmið fyrir sjónlistir. Ég hef unnið úr þessum viðmiðum og greint sex undirflokka; aðferðir, tilgangur, ferli, tjáning, samvinna og umhverfi. Enn fremur má flokka þessi hæfniviðmið eftir því hvort nemandinn sé sjálfur að gera, greina það sem hann gerir eða greina það sem aðrir gera. Út frá þessari vinnu hef ég tekið út þau hæfniviðmið sem ég mun ekki stefna að vegna tímatakmarkanna en þau markmið sem eftir standa stemma við námskránna sem ég hef þróað. Til hliðar hef ég sett lykilhæfni markmið og að lokum er svæði fyrir umsögn. Námsmatsskjalið fylgir nemandanum út sjónlistarnám hans við Giljaskóla en hvert ár á sinn flipa neðst í skjalinu.
HÆFNIVIÐMIÐ SJÓNLISTA
UNDIRFLOKKAR HÆFNIVIÐMIÐA

LYKILHÆFNI MARKMIÐ
UMSÖGN
Sem stendur met ég hæfniviðmið með því að lita hvert markmið í grænum, gulum eða rauðum lit. Þau markmið sem fá grænan lit eru þættir sem nemandinn er búinn að ná, gul markmið eru þau sem nemandinn er ennþá að vinna að og rauðan lit fá þau markmið sem nemandinn er ekki byrjaður að vinna að. Til þess að meta markmiðin hef ég ferilmöppu nemandans til hliðsjónar en megin þunginn liggur í formi sem nemendur fylla sjálfir út við lok kennslutímabils og hafa ferilmöppuna sér til stuðnings.
SJÁLFSSMAT Í GOOGLE FORMS
Ég hef nýtt mér Google Forms til þess að gefa nemendum færi á að meta eigið nám við lok kennslutímabils. Út frá námskránni og hæfniviðmiðunum hef ég samið eyðublað sem nemendur fylla inn rafrænt og hafa ferilmöppuna sér til hliðsjónar. Þegar nemendur hafa skilað eyðublaðinu inn, fer ég yfir það og lita reitina. Ef það er eitthvað sem ég tel að ég þurfi að ræða við viðkomandi, getum við átt spjall áður en kennslustund lýkur. Síðustu kennslustundir kennslutímabils viðkomandi hóps eru helgaðar námsmatinu og hef ég þá tvær til þrjár samliggjandi kennslustundir til þess að sinna matinu. Mér finnst mikilvægt að þessum þætti sé gefið nægilegt svigrúm til að efla enn fremur námsvitund nemenda sem ég tel lykilinn að farsælu námi.



Líkt og ég nefndi hér að ofan er um að ræða þróunarverkefni í stöðugri endurskoðun. Ef þið hafið spurningar eða tillögur þætti mér vænt um að heyra frá ykkur.